Gámaskip fór norður fyrir Rússland

AFP

Danska flutningaskipið Venta Maersk kom til hafnar í Pétursborg í Rússlandi í dag eftir að hafa siglt norður fyrir landið frá rússnesku borginni Vladivostok í austurhluta landsins. Skipið er fyrsta gámaflutningaskipið sem flutt hefur vörur þessa leið.

Fram kemur í frétt AFP að Venta Maersk hafi flutt 3.600 gáma sem meðal annars hafi innihaldið rússneskan fisk og raftæki frá Suður-Kóreu. Flutningaskipið er sérstaklega hannað og styrkt til þess að sigla þar sem búast má við hafís.

Venta Maersk, sem er í eigu stærsta fyrirtækis heimsins á sviði sjóflutninga, Maersk, lagði af stað frá Vladivostok í lok ágúst og tók siglingin fimm vikur með viðkomu í Busan í Suður-Kóreu, Vostochny í Rússlandi og Bremerhaven í Þýskalandi.

Ekki valkostur við Súes-skurðinn enn

Flutningaskipið naut aðstoðar kjarnorkuknúinna ísbrjóta á leiðinni. Fram til þessa hefur aðeins verið mögulegt fyrir minni skip að fara þessa leið og þá aðeins í nokkrar vikur á ári. En með bráðnun íss á norðurslóðum hefur sá tími aukist.

Maersk segir að um tilraunaferð sé að ræða og þarna hafi verið einstakt tækifæri til þess að reyna skipið og áhöfnina. Leiðin norður fyrir Rússland þýðir að siglingartíminn frá höfnum í Suðaustur-Asíu styttist um fimmtán daga.

Hins vegar tekur fyrirtækið fram að eins og er líti það ekki á þessa leið sem mögulegan valkost við leiðina um Súes-skurðinn. Þannig væri leiðin enn sem komið er aðeins fær um þrjá mánuði á ári og fæli í sér aukakostnað vegna þjónustu ísbrjóta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert