Öflugir eftirskjálftar hafa riðið yfir indónesísku eyjuna Sulawesi í dag. Rúmlega sólarhringur er frá því að jarskjálfti, sem mældist 7,5 stig. Á eftir skjálftanum reið flóðbylgja yfir strönd eyjunnar og var ölduhæðin um 3 metrar. Í myndskeiði sem fylgir fréttinni má sjá þegar flóðbylgjan skall á strönd Palu, þar sem ástandið eftir skjálftann og flóðbylgjuna er verst.
Staðfest er að 384 eru látnir og liggja lík eins og hráviði út allt. Óttast er að talan eigi eftir að hækka enn frekar. Sjúkrahúsin ráða engan veginn við ástandið og unnið er að því að koma upp sjúkratjöldum víða um borgina. Yfir 500 eru slasaðir og tuga er enn saknað. Talið er að fjöldi fólks sé fastur undir húsarústum í Palu.
Þá lét flugumferðarstjóri lífið þegar hann var að tryggja að flugvél tækist á loft eftir jarðskjálftann. Enn á eftir að meta hversu umfangsmikið mannfallið og skaðinn eftir skjálftann og flóðbylgjuna eru í raun og veru.
Um 350.000 manns búa í Palu og hefur fjöldi þeirra safnast saman á götum úti þar sem yfirvöld hafa ráðlagt fólki að halda sig utandyra og snúa ekki aftur til heimili sinna, það sem eftir er af þeim, á meðan eftirskjálftarnir ganga enn yfir.