Fengu að fara til hafnar á Möltu

Aquarius við Möltu.
Aquarius við Möltu. AFP

58 flóttamenn, sem bjargað var um borð í björgunarskipið Aquarius á Miðjarðarhafi fyrir tæpri viku, fengu að fara í land á Möltu í dag.

Flóttafólkið, sem kemur flest frá Líbýu og ríkjum sunnan Sahara, var flutt um borð í maltneskt varðskip sem fór með það til hafnar í Valletta. Þaðan var fólkið flutt með rútum í búðir hersins.

AFP

Panama svipti Aquarius heimild til þess að sigla undir fána ríkisins fyrir viku síðar. Það þýddi að skipið mætti ekki leggja úr höfn að nýju ef það kæmi til hafnar. Flóttafólkið, þar á meðal 18 börn og 17 konur, verður flutt til nokkurra ríkja Evrópu. Frakkar hafa samþykkt að taka við 18 þeirra, Þjóðverjar og Spánn 15 hvort ríki og Portúgal 10. 

Það eru mannúðarsamtökin Læknar án landamæra sem gera út Aquarius ásamt SOS Mediterranee. Skipið er það eina sem sjálfstæð mannúðarsamtök reka sem vinnur að því að bjarga flóttafólki úr sjávarháska á Miðjarðarhafi. 

AFP

Þar sem skipið hefur verið svipt hentifána er gert ráð fyrir að því verði siglt til hafnar í Marseille. 

Meðal flóttafólksins er kona sem er komin fimm mánuði á leið en auk fólksins var hundurinn Bella, sem er fyrsti flóttahundurinn sem er bjargað af Miðjarðarhafinu. 

Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, segir að ekki liggi fyrir hverjir fara til hvaða lands. „Við vonum að þau geti farið frá Möltu innan fárra daga,“ segir talsmaður UNHCR, Paolo Biondi.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert