Harmleikur sem bara versnar

AFP

Afleiðingar jarðskjálftans og flóðbylgjunnar á indónesísku eyjunni Sulawesi eru enn verri og hryllilegri en talið var þar sem fórnarlömb náttúruhamfaranna eru að finnast víðar en áður var talið. Alls eru 832 lík fundin og óttast er að talan eigi eftir að hækka enn frekar. 

Þetta var 10 hæða hótel í Palu áður en skjálftinn …
Þetta var 10 hæða hótel í Palu áður en skjálftinn reið yfir. AFP

Stjórnendur Rauða krossins segja þetta harmleik sem eigi væntanlega eftir að versna enn frekar. Forseti Indónesíu, Joko Widodo, var að koma á skjálftasvæðið.

Vitað er um fjölmarga sem eru fastir undir húsarústum sem hrundu í jarðskjálftanum á föstudag. Skjálftinn mældist 7,5 stig. Á fundi með blaðamönnum áðan sagði talsmaður almannavarna, Sutopo Purwo Nugroho, að flóðbylgjan sem skjálftinn setti af stað hafi mælst allt að sex metrar að hæð.

Lík hlaðast upp á eyjunni og fólk leitar í örvæntingu …
Lík hlaðast upp á eyjunni og fólk leitar í örvæntingu að vinum og ættingjum. AFP

Farið er að bera á matvæla- og vatnsskorti á eyjunni og hefur víða verið tilkynnt um gripdeildir.

Tala látinna hefur meira en tvöfaldast frá því síðustu tölur voru gefnar út og segir varaforseti Indónesíu, Jusuf Kalla, að búast megi við því að þeir skipti þúsundum þegar upp er staðið.

Risa Kusuma, íbúi í Palu og móðir lítils drengs, segir ástandið slæmt í borginni en hún dvelur í neyðarskýli. „Á hverri mínútu kemur sjúkrabíll með lík og hreint vatn er vart fáanlegt. Alls staðar er verið að ræna smávöruverslanir.“

AFP

Indónesíska sjónvarpsstöðin Metro sýndi í dag myndir frá strandsvæðinu Donggala sem er skemmt frá upptökum skjálftans. Þar sjást alls staðar húsarústir á floti í vatni en að sögn íbúa náðu flestir að flýja hærra upp undan flóðbylgjunni. „Þegar skjálftinn reið yfir þá hlupum við öll upp í hæðirnar,“ segir Iswan í samtali við Metro.

Í Palu má sjá hermenn og aðra sem koma að björgunarstarfinu leita fólks í húsarústum í þeirri von að enn sé hægt að finna fólk á lífi. Til að mynda er 150 gesta á hóteli sem hrundi enn saknað.

AFP

„Okkur tókst að bjarga konu á lífi úr rústum hótels Roa-Roa í gærkvöldi,“ segir Muhammad Syaugi, yfirmaður björgunarmála. „Við heyrðum jafnvel hróp eftir hjálp þaðan í gær.“

„Það sem okkur vantar svo nauðsynlega núna eru stórvirkar vinnuvélar til þess að hreinsa rústirnar. Ég er með starfsfólk mitt á svæðinu en það er ómögulegt að reiða sig aðeins á mannlegan styrk til þess að hreinsa svæði sem þetta.“

AFP

Jafnframt er óttast um afdrif hundruð gesta sem voru að undirbúa strandhátíð þegar jarðskjálftinn reið yfir á föstudag með þeim afleiðingum að strandlengjan bókstaklega gliðnaði í tvennt. Ættingjar fólksins hafa komið upp Facebook-síðu þar sem þeir birta myndir og lýsa eftir ættmennum sínum í þeirri von að einhverjir þeirra séu á lífi.

AFP

Hvert sem farið er blasa við tré sem hafa rifnað upp með rótum, brak bíla og rekaviður langt uppi á landi. Enn á eftir að meta hversu mikið tjónið er en ljóst að það er gríðarlegt.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert