Hundruð hafa látist og margra er enn saknað á indónesísku eyjunni Sulawesi eftir náttúruhamfarirnar þar á föstudag. Kröftug flóðbylgja kom þá í kjölfarið á jarðskjálfta að stærðinni 7,5.
Eftir skjálftann var send út flóðbylgjuviðvörun. Hins vegar var viðvörunin dregin til baka þegar almannavarnir Indónesíu töldu að hún myndi ekki ná landi. Sú varð þó raunin og um tveggja metra há flóðbylgjan braut sér leið langt inn í land og lagði fjölda mannvirkja í rúst.
Að minnsta kosti 844 manneskjur hafa látist eftir jarðskjálftann en upptök hans voru rétt utan við eyjuna Sulawesi síðdegis á föstudag að staðartíma. Um 48 þúsund manns hafa misst heimili sín eða þurft að yfirgefa þau.
Borgin Palu fór verst út úr flóðbylgjunni sem fylgdi í kjölfar skjálftans en ölduhæðin þar náði allt að sex metrum. Byggingar hrundu og eyðileggingin er gríðarleg. Mörg hundruð manns höfðu komið saman á ströndinni vegna hátíðarhalda en sjónarvottar segja að öldurnar hafi hreinlega hrifið allt með sér sem fyrir þeim varð.
Yfirvöld í Indónesíu hafa sagt að flest fórnarlömbin í Palu hafi látist af völdum flóðbylgjunnar.
Fjölmargir hafa gagnrýnt almannavarnir Indónesíu fyrir að hafa aflétt flóðbylgjuviðvörun of snemma. Almannavarnir fullyrða hins vegar að flóðbylgjan hafi skollið á meðan viðvörunin var enn í gildi.
Dwikorita Karnawati segir að flóðbylgjuviðvöruninni hafi verið aflétt klukkan 18:37 og að það sé nokkrum mínútum eftir að þriðja og síðasta flóðbylgjan skall á land. Ekki hafi verið um fleiri flóðbylgjur að ræða eftir að viðvöruninni var aflétt.
Þrátt fyrir að viðvaranir hafi verið sendar út er ekki víst að fólk hafi móttekið þær. Raflínur hrundu í skálftanum og því fengu íbúar ekki skilaboð send til sín eins og hefði átt að gerast. Auk þess heyrðist ekki í sírenum á ströndinni.
Á myndskeiði sem hefur töluvert verið deilt á samfélagsmiðlum má sjá afleiðingarnar. Maður reynir að öskra að fólki á ströndinni að vara sig en það áttar sig ekki á risastórri bylgjunni sem nálgast.
Sérfræðingar benda á að hamfarirnar undirstriki að viðvörunarkerfið vegna náttúruhamfara í Indónesíu þarf að vera betra.