Tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun

Jean-Claude Arnault á leið í réttarsalinn fyrr í mánuðinum.
Jean-Claude Arnault á leið í réttarsalinn fyrr í mánuðinum. AFP

Sænskur dómstóll hefur dæmt Frakkann Jean-Claude Arnault í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun. Ásakanir 18 kvenna undir lok síðasta árs á hendur Arnault um kynferðisofbeldi hafa leitt til svo harðvítugra deilna innan Sænsku akademíunni (SA), sem veitir bókmenntaverðlaun Nóbels, að nefndin er sem stendur óstarfhæf. 

Málið hófst með #met­oo-her­ferðinni í nóv­em­ber í fyrra eftir að sænska dag­blaðið Dagens Nyheter birti frá­sagn­ir átján kvenna sem sökuðu Arnault um að hafa nauðgað þeim, beitt þær kyn­ferðis­legu of­beldi eða áreitt þær kyn­ferðis­lega. 

Jean-Claude Arnault var fyrir rétti í Stokkhólmi í morgun dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun. Jafnframt var honum gert að greiða þolandanum 115 þúsund sænskar krónur í skaðabætur.

Þvingaði konuna til munnmaka

Saksóknari hafði farið fram á þriggja ára fangelsi yfir Arnault fyrir að hafa brotið á sömu konunni í þrígang síðla árs 2011. Arnault er sakfelldur fyrir að hafa aðfaranótt 6. október október 2011 þvingað konuna til munnmaka áður en hann á að hafa nauðgað henni.

Á blaðamannafundi fyrr í dag sagði dómarinn Gudrun Antemar að lýsingar konunnar á atburðum væri trúverðugar og alls sex vitni hefðu staðfest upplifun hennar, þar á meðal læknir hennar og sálfræðingur. Arnault var ekki sakfelldur fyrir að hafa aðfaranótt 3. desember 2011 komið fram vilja sínum við sömu konu meðan hún var sofandi, þar sem ekki reyndist hægt að sanna að konan hefði verið sofandi og þar með „bjargarlaus“ samkvæmt skilgreiningu þágildandi laga. 

Óttast að hann gæti flúið land

Arnault hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu og sagt kynmökin hafa verið með vilja þolandans. Á lokadegi réttarhaldanna í síðustu viku var hann hnepptur í gæsluvarðhald þar sem talsverðar líkur þóttu á því að Arnault, sem er franskur ríkisborgari, gæti flúið land og farið huldu höfði í krafti auðæfa sinna. Björn Hurtig, lögmaður Arnault, tilkynnti strax við það tækifæri að væntanlegum dómi yrði áfrýjað. Arnault verður áfram í gæsluvarðhaldi.

Elisabeth Massi Fritz, lögmaður konunnar sem Jean-Claude Arnault var í …
Elisabeth Massi Fritz, lögmaður konunnar sem Jean-Claude Arnault var í dag sakfelldur fyrir að hafa nauðgað síðla árs 2011. AFP

Telur dóminn mikilvægan fyrir #metoo-byltinguna

Elisabeth Massi Fritz, lögmaður þolandans, segir að konunni sé létt yfir niðurstöðu dómstólsins. „Hún trúir á réttvísina. Þetta mál hefur verið henni óbærilega þungbært árum saman, en nú þegar dómur er fallinn hefur þetta allt verið þess virði,“ segir Fritz, sem telur að dómurinn sé mikilvægur í allri umræðunni um #metoo-byltinguna. 

„Þolendur kynferðisofbeldis þurfa ekki lengur að þegja, þolendur eiga ekki lengur að bera ábyrgðina og skömmina. Þvert á móti ættu þolendur að kæra málin til lögreglunnar eins fljótt og auðið er,“ segir Fritz og bendir á að mikilvægt sé að halda öllum sönnunargögnum til haga. 

„Ef fyrir hendi eru sönnunargöng má vænta dóms yfir geranda þó að málin séu komin til ára sinna. Dómurinn í dag staðfestir þetta,“ segir Fritz. 

Sannfærður um að dómnum verði hnekkt

Samkvæmt sænsku fréttaveitunni TT mun Björn Hurtig, lögmaður Arnault, áfrýja dómnum.  „Hann er sannfærður um að málinu verði snúið á næsta dómstigi, þannig að nú einbeitum við okkur að þeirri vinnu,“ segir Björn Hurtig. 

Björn Hurtig, lögmaður Jean-Claude Arnault ræðir við fréttafólk.
Björn Hurtig, lögmaður Jean-Claude Arnault ræðir við fréttafólk. AFP

„Þetta er erfitt mál. Hann hefur nú mánuðum saman átt í höggi við fljóðbylgju haturs og ljótra orða á samfélagsmiðlum. Nú er hann dæmdur og situr í gæsluvarðhaldi, þannig að honum líður augljóslega ekki vel,“ segir Hurtig um umbjóðanda sinn, Jean-Claude Arnault. 

Arnault er kvæntur Katarinu Frostenson sem fyrr á árinu vék sæti úr Sænsku akademíunni í kjölfar harðvítugra deilna innan SA um það hvernig taka skyldi á ásökunum þess efnis að Arnault hefði áratugum saman beitt konur kynferðislegu ofbeldi. Í nóvember 2017 stigu 18 konur fram og lýstu reynslu sinni í Dagens Nyheder. Málið hefur leitt til djúprar krísu innan SA sem neyddist til að fresta afhendingu Nóbelsverðlaunanna í ár. Lars Heikensten, stjórnandi Nóbelsstofnunarinnar, sagði um helgina ekki fullvíst að af afhendingu gæti orðið á næsta ári. 

Dómurinn dýpkar krísu Sænsku akademíunnar

Carl-Henric Grenholm, siðfræðiprófessor við Háskólann í Uppsölum, segir dóminn yfir Arnault dýpka krísu Sænsku akademíunni (SA) í ljósi þess að SA valdi að starfa með Arnault árum saman eftir að fyrstu fréttir komu fram um að Arnault hefði beitt fjöldi kvenna kynferðislegt ofbeldi. Sænska dagblaðið Expressen greindi árið 1997 fyrst frá ásökunum kvenna í garð Arnault. Það sama ár skrifaði kona Sture Allén, þáverandi ritara Sænsku akademíunnar, bréf þar sem hún lýsti því kynferðislegu ofbeldi sem Arnault beitti hana í húsakynnum Forum, bókmenntaklúbbsins sem Arnault rak með eiginkonu sinni, Katarinu Frostenson. Allén valdi að gera ekker með þær upplýsingar. 

Meðan Horace Engdahl gegndi starfi ritara Sænsku akademíunnar kom hann því til leiðar að Forum kæmist á fastan árlegan styrk frá SA. Lögfræðiúttektin sem Sara Danius, þáverandi ritari SA, fól lögfræðistofunni Hammarskiöld & Co að gera í framhaldi af fréttaflutningi Dagens Nyheter á síðasta ári leiddi í ljós að Arnault hafði átt óeðlileg fjárhagsleg tengsl við SA gegnum eiginkonu sína og vin, Horace Engdahl. Úttektin leiddi jafnframt í ljós að Arnault hafði ítrekað lekið nafni komandi Nóbelsverðlaunaskálds, þeirra á meðal voru Wislawa Szymborska (sem hlaut verðlaunin árið 1996), Elfriede Jelinek (2004), Harold Pinter (2005), Jean-Marie Gustave Le Clézio (2008), Patrick Modiano (2014), Svetlana Aleksijevitj (2015) og Bob Dylan (2016).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert