Á meðan björgunarfólk etur kappi við tímann til að finna fólk á lífi í rústum á eyjunni Sulawesi á Indónesíu klóra vísindamenn sér í höfðinu yfir því hvernig skjálftinn gat valdið jafnstórri flóðbylgju og raun bar vitni.
Jarðskjálfti upp á 7,5 stig reið yfir eyjuna á föstudag og flóðbylgja, sem náði allt að sex metra hæð, fylgdi í kjölfarið. Stjórnvöld á Indónesíu hafa staðfest að 1.347 manns hafi látið lífið en óttast er að mun fleiri hafi látist.
Skjálftinn var vissulega stór, meðal þeirra stærstu sem mælst hafa á jörðinni í ár, en þar sem hann varð við lárétta hreyfingu, það er við hjárek þegar tveir flekar rekast saman, var ekki búist við stórri flóðbylgju í kjölfarið. Alla jafna fylgir flóðbylgja ekki láréttri hreyfingu við jarðhræringar, að minnsta kosti ekki jafnhárri og gekk yfir Sulawesi. Því kom flóðbylgjan jarðeðlisfræðingum mikið á óvart.
Eftir skjálftann var send út flóðbylgjuviðvörun. Hins vegar var viðvörunin dregin til baka þegar almannavarnir töldu að hún myndi ekki ná landi líkt og mælingar gáfu til kynna. Sú varð þó raunin og um tveggja til sex metra há flóðbylgjan braut sér leið langt inn í land og lagði fjölda mannvirkja í rúst.
Fjölmargir hafa gagnrýnt almannavarnir Indónesíu fyrir að hafa aflétt flóðbylgjuviðvörun of snemma. Almannavarnir fullyrða hins vegar að flóðbylgjan hafi skollið á meðan viðvörunin var enn í gildi.
Jarðeðlisfræðingar telja líklegast að skriðufall neðansjávar hafi orðið við skjálftann sem hleypti flóðbylgjunni af stað. Borgin Palu, þar sem flóðbylgjan varð hvað öflugust, er inni í flóa sem margfaldaði áhrif flóðbylgjunnar.
Skriðufall neðansjávar hefur hins vegar ekki verið staðfest af vísindamönnum en rannsókn á jarðskjálftanum og flóðbylgjunni er í fullum gangi.
„Fyrstu útreikningar mínir á aflögun sjávarborðsins við jarðskjálftann miða við 49 sentimetra,“ segir dr. Mohammad Heidarzadeh, aðstoðarprófessor við verkfræðideild Brunel-háskóla í Bretlandi, í samtali við breska ríkisútvarpið. Hann segir að miðað við hvernig skjálftinn kom til, það er við hjárek, hefði mátt búast við flóðbylgju upp á einn metra, ekki sex. „Það er því eitthvað meira í gangi. Tilgáturnar tvær eru góðar og gildar, aurskriða neðansjávar og útsogið í flóanum við Palu.“
Upptök og orsök skjálftans og flóðbylgjunnar ættu að skýrast nánar á næstu dögum og vikum. Von er á fleiri rannsakendum til Sulawesi til að meta áhrif og umfang hamfaranna.