Björgunarsveitir í Indónesíu hafa enn ekki komist á afskekkt svæði á eyjunni Sulawesi sem misst hafa samband við umheiminn í kjölfar jarðskjálftans og flóðbylgjunnar sem reið yfir síðasta föstudag. Vaxandi óánægju gætir í þeim byggðum þar sem engin aðstoð hefur borist.
Jarðskjálftinn mældist 7,5 stig og fylgdi sex metra há flóðbylgja í kjölfarið. Staðfest er að um 1.400 hafa látist í náttúruhamförunum og er talið nánast óhugsandi að nokkur finnist á lífi héðan í frá. Stjórnvöld í Indónesíu engu að síður sett föstudag sem síðasta mögulega dag til að finna einhvern á lífi í húsarústunum.
Björgunaraðgerðir hafa að stærstum hlut farið fram í borginni Palu, þar sem flestir hinna látnu hafa fundist. Það hefur vakið reiði íbúa annars staðar sem segja enga hjálp hafa borist.
Sameinuðu þjóðirnar hafa þannig varað við því að enn hafi engin aðstoð borist þeim svæðum sem kunni að hafa orðið hvað verst úti og óttast menn að tala látinna muni hækka enn frekar þegar hjálparsveitir komast þangað.
„Björgunarteymin eru samt að vinna af fullu og eru að gera allt sem þær geta,“ hefur BBC eftir Jen Laerke talsmanni mannúðarstarfs Sameinuðu þjóðanna.
Aurskriður sem hafa fallið, brýr sem hafa hrunið og símalínur sem liggja niðri gera björgunarfólki erfitt um vik að komast til afskekktustu byggðanna, en um 1,4 milljónir manna búa á hamfarasvæðinu og hafa að minnsta kosti 70.000 þeirra safnast saman í neyðarskýlum víða um eyjuna.
Í Donggala héraði, þar sem um 300.000 manns búa, sagði einn hjálparstarfsmaður við Reuters að „stjórnvöld vanti á svæðið“. „Það þurfa allir á matvælum og vatni að halda. Hér er hvorki matur, vatn, né eldsneyti,“ sagði hann.
Joko Widodo, forseti Indónesíu, er nú á sinni annarri ferð um hamfarasvæðið. Margir íbúar þeirra svæða sem orðið hafa illa úti hafa hins vegar gagnrýnt Widodo. „Forsetinn fær ekki að heyra af afskekktum stöðum, heldur bara um flóðbylgjuna og Palu,“ sagði Yahdi Basma sem kemur frá svæði sunnan Palu.
„Hundruð manna eru enn grafin undir aur í mínu þorpi. Ég missti marga fjölskyldumeðlimi og nágranna. Engin hjálp hefur borist þangað og þess vegna erum við að fara.“
Þegar hafa rúmlega 500 manns verið grafin í fjöldagröfum og yfir 29 ríki hafa boðið indónesískum stjórnvöldum mannúðaraðstoð vegna skjálftans og flóðbylgjunnar.