Frægasta ströndin lokuð næstu árin

Enginn ferðamaður kemur til hinnar frægu strandar í Maya-flóa.
Enginn ferðamaður kemur til hinnar frægu strandar í Maya-flóa. AFP

Taílenska flóanum sem varð frægur vegna kvikmyndarinnar The Beach verður lokað um óákveðinn tíma svo lífríkið fái að jafna sig eftir hjarðir ferðamanna sem þangað hafa komið í kjölfar myndarinnar. Þegar var í gildi tímabundið bann við heimsóknum á svæðið. 

Maya-flói sem er undir klettabelti á eyjunni Ko Phi Phi Ley var á allra vitorði eftir kvikmyndina The Beach með Leonardo DiCaprio í aðalhlutverki en myndin kom út árið 2000.

Í júní var ákveðið að banna komur fólks á svæðið vegna landrofs og mengunar í þessari paradís sem áður hafði mjallhvítar sandstrendur. 

Í ljós kom að hin tímabundna lokun var ekki nóg svo að svæðið gæti jafnað sig. Þá kom í ljós að landskemmdir voru meiri en áður hafði verið talið.

Leonardo DiCaprio í hlutverki sínu í kvikmyndinni The Beach.
Leonardo DiCaprio í hlutverki sínu í kvikmyndinni The Beach.

Yfirmaður þjóðgarða og verndarsvæða í Taílandi segir að lífríkið hafi skemmst alvarlega vegna daglegrar komu um 5.000 ferðamanna. Frá því í júní hafi svæðið verið skoðað reglulega og nú sé ljóst að það þarf lengri tíma til að jafna sig.

Skemmdir hafa orðið á gróðri og mengun orðið á landi sem og í flóanum vegna mikillar bátaumferðar. Óttast er að kóralrif hafi skemmst en þau eru þegar viðkvæm vegna loftslagsbreytinga.

Talið er að flóinn verði lokaður ferðamönnum í að minnsta kosti fjögur ár. 

Hefur slæm áhrif á nærsamfélagið

Á hverju ári heimsækja 35 milljónir ferðamanna Taíland. Margir leggja leið sína til bæjarins Krabi og fara þaðan á báti að Maya-flóa. 

Fyrirtæki í ferðaþjónustu eru vonsvikin með þessi málalok. „Allir ferðamenn vilja sjá Maya-flóa,“ segir Nanthapat Horbut sem rekur ferðaþjónustu sem flutt hefur fólk að hinni frægu strönd. 

Þá hafa margir miklar áhyggjur af áhrifunum sem verða á nærsamfélagið sem stólar á ferðaþjónustuna til tekjuöflunar. Er mælst til þess að ríkið reyni með einhverjum hætti að koma til móts við íbúana. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert