Grafa upp lík fórnarlamba kókaínstríðsins

Líkamsleifar í grafreit í frumskóginum sem starfsmenn Rauða krossins grófu …
Líkamsleifar í grafreit í frumskóginum sem starfsmenn Rauða krossins grófu upp. AFP

Í skugga kókarunna er ómerkt gröf. Margar slíkar er að finna á gróskumiklum ökrum Catatumbo og í þeim liggja ónafngreind fórnarlömb hins blóðuga kókaínstríðs Kólumbíu.

Alþjóða-Rauða krossinn hefur fengið það hlutverk að finna grafirnar og reyna að bera kennsl á þær líkamsleifar sem þar liggja svo að ættingjar fórnarlambanna fái einhverja sálarró. Rauði krossinn hefur hafið þetta verkefni sem stjórnvöld, bæði á lands- og svæðisvísu, hafa ekki sinnt.

Heimamenn í Catatumbo telja að í gröfinni undir kókarunnanum hvíli Polilla, kallaður Kjafturinn. Það var gælunafn uppskerumannsins. Lík hans fannst á þessum slóðum sundurskotið fyrir um fimmtán árum. Hann var enn eitt fórnarlamb vopnaðra hersveita Kólumbíu.

Íbúar fylgjast með störfum starfsmanna Rauða krossins í Catatumbo-frumskóginum þar …
Íbúar fylgjast með störfum starfsmanna Rauða krossins í Catatumbo-frumskóginum þar sem unnið er að því að finna líkamsleifar fólks sem myrt var í óöldinni. AFP

Hann var ekki orðinn þrítugur. Bændur sem ræktuðu kókaplönturnar á svæðinu grófu hann við runnann, skammt frá þeim stað þar sem lík hans lá dögum saman án þess að nokkur vitjaði þess.

Fjölskylda hans kom ekki á staðinn til að sækja lík hans þar sem hún óttaðist hefndaraðgerðir. Í fyrra hafði hún svo samband við Rauða krossinn.

„Við viljum ekki ganga í störf ríkisins. En þegar aðgengi að svæðum er nær ómögulegt þá komum við til skjalanna og leitum hinna horfnu,“ segir Derek Congram, verkefnastjóri Rauða krossins.

Á árunum 1999 til 2004 voru hundruð manna sem ræktuðu kókaplöntur, þeir sem neðstir eru í framleiðslukeðju kókaíns, drepnir af skæruliðum sem sögðu þá hliðholla óvininum.

Rauði krossinn er nú að skoða 1.888 mannshvörf í Kólumbíu. Hundruð þeirra tengjast Catatumbo sem er við landamærin að Venesúela. 

Það er aðeins lítið brot af þeim 80 þúsund sem saknað er eftir sex áratuga langt tímabil ofbeldis og átaka sem Kólumbíumönnum fannst engan endi ætla að taka. 

„Blóðsúthellingin á þessu svæði var gríðarleg. Margir létust, verkamenn sem eigendur plantekranna,“ segir Rogelion, leiðtogi bændasamfélags í Catatumbo. Hann vill ekki gefa upp fullt nafn. Það vill enginn á þessum slóðum. Þó að tíminn hafi liðið þá vofir enn ógn yfir íbúunum, sérstaklega núna þegar framleiðsla á kókalaufum, sem síðar er unnið kókaín úr, hefur margfaldast. 

Starfsmenn Rauða krossins fá ábendingar um hvar lík kunni að …
Starfsmenn Rauða krossins fá ábendingar um hvar lík kunni að vera grafin og hefja svo gröft með haka og skóflu. AFP

Í norðausturhluta Catatumbo er að finna um 16% af kókaökrum Kólumbíu.

Áratugum eftir að ríkisstjórnin hóf hið blóðuga kókaínstríð telja Sameinuðu þjóðirnar að 171 þúsund hektarar lands séu nýttir undir kókaakra. Hafa þeir aldrei verið jafnumfangsmiklir í landinu.

Það er möguleiki að morðingjar Polilla séu ekki enn að störfum á svæðinu. Helsti vopnaði hópurinn, FARC, var leystur upp formlega með friðarsamkomulagi árið 2016. 

En hundruð vopnaðra hópa eru enn virkir í landinu. Þeir takast á um landssvæði og smyglleiðir við glæpahópa sem hafa styrkt stöðu sína í kókaplönturæktuninni.

Áður en starfsmenn Rauða krossins fara um hin hættulegu fjöll Catatumbo gera þeir samkomulag við glæpahópana sem fara með yfirráð á hverju svæði fyrir sig. Þannig vonast þeir til að tryggja ferð sína að gröfunum sem þar er að finna, tryggja að ekki verði lagðar jarðsprengjur fyrir fætur þeirra. 

Hópurinn frá Rauða krossinum komst loks að staðnum þar sem Polilla hafði búið og reynt að draga fram lífið á kókaökrunum. Það varð síðar til þess að hann var myrtur fyrir fimmtán árum. 

Hópurinn er með prik og skóflur meðferðis og grefur í jarðveginum. Þeir koma fljótlega auga á gúmmístígvél og loks bút úr skyrtu. Engin bein var enn að finna í hinni grunnu gröf. 

Kjálkabein kom upp úr einni gröfinni.
Kjálkabein kom upp úr einni gröfinni. AFP

„Þetta er ekki sú niðurstaða sem við vildum fá en samt engin vonbrigði,“ segir Congram. Hann átti von á því að rotnun hefði verið það mikil að ekki myndi takast að bera kennsl á allar líkamsleifar. Þá er reynt að notast við fatnað og persónulega muni í gröfunum til að staðfesta hver þar liggur. „Fyrir fjölskylduna, þá er þetta eitthvað. Ófullkomið svar að hluta. En það er betra en ekkert.“

Frá árinu 1997 hefur Rauði krossinn fundið líkamsleifar 151 manns með sambærilegum hætti. Stundum hafa bein fundist, stundum aðeins bútar úr klæðnaði. Allt er þetta afhent meinafræðingum. Ekki hefur alltaf tekist að bera kennsl á hina látnu.

Þá niðurstöðu fékk Aurelio. Hann missti bróður sinn, þá átján ára gamlan, árið 2001. Aurelio segir AFP að á þeim tíma hafi líkunum verið hent í ána eða grafin. „[Skæruliðarnir] neyddu marga til að grafa sínar eigin grafir.“

Hann hélt að lík bróður síns væri grafið á ákveðnum akri ásamt fleirum. En aurskriða hafði fært grafirnar. Rauði krossinn varð því frá að hverfa og bíður enn frekari upplýsinga um hvar er best að leita. Aurelio bíður því enn svara.

Catatumbo er enn eins og tifandi tímasprengja. Glæpagengin takast enn á við skæruliðahópa sem eru nokkurs konar leifar FARC. Annað slagið eru svo sveitir stjórnarhersins sendar á vettvang til að freista þess að brjóta ofbeldið á bak aftur.

Í miðju frumskógarins er grafreitur.
Í miðju frumskógarins er grafreitur. AFP

Áður en teymi Rauða krossins hverfur af vettvangi verður það að sinna einu verkefni til viðbótar. Það verður að koma við í grafreit í frumskóginum og grafa upp lík manns sem sagður er hafa verið myrtur af skæruliðum  árið 1993.

Fjölskylda hans flúði án þess að geta veitt honum viðeigandi greftrun. Í gröfinni er að finna búta úr klæðum hans og bein.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert