Ákæra sjö Rússa fyrir netárásir

Yfirlýsing Bandaríkjanna kemur skömmu eftir að hollensk yfirvöld sögðust hafa …
Yfirlýsing Bandaríkjanna kemur skömmu eftir að hollensk yfirvöld sögðust hafa rekið fjóra Rússa úr landi. Ljósmynd/Hollenska varnarmálaráðuneytið

Eins og greint hefur verið frá í dag hafa Rússar verið sakaðir um netárásir víða um heim og hefur það meðal annars leitt til þess að bandarísk yfirvöld hafa ákært sjö starfsmenn rússnesku leyniþjónustunnar fyrir að hafa skipulagt slíkar árásir. BBC greinir frá

Bandaríska dómsmálaráðuneytið segir að árásirnar hafi átt að beinast gegn alþjóðlegri stofnun gegn notkun efnavopna, lyfjaeftirlitinu og bandarískum kjarnorkufyrirtækjum. Ásakanir Bandaríkjamanna eru þáttur í aðgerðum gegn meintum netárásum Rússa.

Rússnesk yfirvöld hafa neitað öllum ásökunum um skipulagðar netárásir og segja Vesturlönd vera með njósnara á heilanum.

Greint var frá því fyrr í dag að hollenska öryggislögreglan hefði rekið fjóra Rússa úr landi vegna netárásar sem átti að beinast gegn OPCW, alþjóðlegri stofn­un gegn notk­un efna­vopna, en stofnunin hefur meðal annars rannsakað efnavopnaárásina á rússneska gagnnjósarann Sergei Skripal og dóttur hans í Bretlandi fyrr á þessu ári.

Í sameiginlegri yfirlýsingu frá Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, og Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, segir að skipulagning þessara árása sýni fram á að leyniþjónusta rússneska hersins beri enga virðingu fyrir alþjóðlegum gildum og reglum sem viðhalda öryggi í heiminum.

Hollensk yfirvöld segja að upp hafi kom­ist um áætl­un­ Rússanna fjögurra í kjöl­far sam­starfs Hol­lend­inga við bresk og banda­rísk yf­ir­völd.

Eru menn­irn­ir fjór­ir sagðir hafa komið til lands­ins á diplómatavega­bréf­um. Einn þeirra er sagður hafa verið tölvu­sér­fræðing­ur, en hinir aðstoðar­menn hans. Menn­irn­ir leigðu bíl og til þeirra sást kanna aðstæður fyr­ir netárás­ina sem stóð til að gera á OPCW.

Guar­di­an seg­ir hol­lensku ör­ygg­is­lög­regl­una hafa gripið menn­ina fjóra í miðjum glæp og að þeir hafi verið send­ir sam­stund­is til baka til Rúss­lands, en hald lagt á tækni­búnað þeirra.

Þá benda heim­ild­ir Guar­di­an einnig til þess að net­glæpa­deild GRU hafi reynt að gera netárás á Port­on Down-efna­vopn­a­rann­sókn­ar­stof­urn­ar í Bretlandi á svipuðum tíma. 

Hald var lagt á far­tölvu sem menn­irn­ir voru með og hafði hún verið notuð í Bras­il­íu, Sviss og Malas­íu. Var tölv­an notuð í Malas­íu til að ná fram upp­lýs­ing­um um rann­sókn­ina á MH-17, sem var flug­vél Malaysia Air­lines-flug­fé­lags­ins.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert