Mörg börn hafa orðið viðskila við foreldra sína og fjölskyldur og eru í áfalli eftir jarðskjálftann og flóðbylgjuna sem honum fylgdi í Indónesíu. Þetta segja starfsmenn hjálparstofnana á vettvangi. Gríðarleg þörf er á aukinni neyðaraðstoð á svæðinu.
Staðfest er að 1.411 létust og 2.500 slösuðust er jarðskjálftinn reið yfir á föstudag. Verst er ástandið á eyjunni Sulawesi þar sem flóðbylgja í kjölfar skjálftans olli miklum usla.
Strandbærinn Palu varð sérstaklega illa úti og þar varð gríðarleg eyðilegging. Tafir hafa orðið á neyðaraðstoð og hópar fara um rænandi og ruplandi.
Í gær stóðu vopnaðir lögreglumenn vörð við bensínstöð til að tryggja frið í löngum biðröðunum. Fréttir herma að vörubílar með hjálpargögn hafi verið rændir á leið sinni til Palu.
Í fyrstu gerðu yfirvöld lítið til að hafa hendur í hári ræningja en nú hefur verið ákveðið að taka loks málið fastari tökum. Munu hermenn skjóta á þá sem sjást stela.
Leitað er enn í rústum húsa en vonin um að finna einhverja á lífi fer þverrandi. Að minnsta kosti hundrað manns er enn saknað.
Um 600 þúsund börn hafa orðið fyrir áhrifum vegna skjálftans að sögn samtakanna Save the Children. Mörg þeirra sofa á götum úti innan um brak húsanna.
Mörg börn hafa orðið munaðarlaus eða orðið viðskila við fjölskyldur sínar. Hjálparstofnanir vinna nú að því ásamt stjórnvöldum að sameina fjölskyldur á ný.
„Það er erfitt að ímynda sér hræðilegri aðstæður fyrir börn,“ segir Zubedy Koteng frá Save the Children. „Mörg börn eru í miklu áfalli, alein og hrædd. Ung börn leita að ættingjum sínum og þau hafa upplifað hræðilega hluti sem ekkert barn ætti að þurfa að upplifa.“
Indónesísk stjórnvöld höfnuðu í fyrstu alþjóðlegri neyðaraðstoð og sögðu að her landsins réði við aðstæður. En síðustu daga hafa áhrif náttúruhamfaranna orðið ljós og forseti landsins hefur fallist á að hleypa starfsmönnum alþjóðlegra hjálparstofnana og samtaka á vettvang.
Um þrjátíu lönd hafa boðið fram aðstoð sína en enn sem komið er hefur lítil neyðaraðstoð borist. Það var fyrst í gær sem hægt var að opna flugvöllinn í Palu á ný.