Bresk stjórnvöld saka leyniþjónustu rússneska hersins um að hafa staðið á bak við fjórar tölvuárásir. Bresk stofnun (NCSC) sem rannsakað hefur málið segir að skotmörkin hafi verið fyrirtæki í Rússlandi og Úkraínu, bandaríski Demókrataflokkurinn og lítil sjónvarpsstöð í Bretlandi.
Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins, BBC.
Er árásirnar voru gerðar voru sumar þeirra þá þegar tengdar Rússum en þetta er í fyrsta skipti sem bresk yfirvöld benda á leyniþjónustu hersins í þessu sambandi. Þetta er sama stofnun og mennirnir tveir, sem grunaðir eru um að hafa eitrað fyrir Skripal-feðginunum, voru á mála hjá.
NCSC, sem hefur eftirlit með tölvuöryggi og hefur rannsakað árásirnar, segist nánast fullviss um að leyniþjónusta rússneska hersins hafi staðið að árásunum.
Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, hefur fordæmt árásirnar og segir að með þeim hafi alþjóðalög verið virt að vettugi.