Hljóta friðarverðlaun Nóbels

Nadia Murad hlýtur friðarverðlaun Nóbels í ár ásamt kvensjúkdómalækninum Denis …
Nadia Murad hlýtur friðarverðlaun Nóbels í ár ásamt kvensjúkdómalækninum Denis Mukwege. AFP

Friðarverðlaun Nóbels í ár falla í skaut baráttufólks gegn nauðgunum í stríði, þeim Nadiu Murad og Denis Mukwege.

Berit Reiss-Andersen, formaður dómnefndar Nóbelsverðlaunanna, segir að baráttukonan Murad og kvensjúkdómalæknirinn Mukwege hafi gegnt lykilhlutverki í baráttunni gegn kynferðisbrotum í stríði. „Þau hafa hlúð að þúsundum fórnarlamba árása í borgarastríði sem hefur kostað þúsundir lífið í Austur-Kongó,“ sagði hún.

Kongólski læknirinn Denis Mukwege hlýtur friðarverðlaun Nóbels í ár.
Kongólski læknirinn Denis Mukwege hlýtur friðarverðlaun Nóbels í ár. AFP

Mannréttindafrömuðurinn Murad er jasídi frá Írak. Henni var rænt af vígamönnum Ríkis íslams árið 2014 og haldið fanginni. Hún losnaði ekki úr prísundinni fyrr en þremur árum síðar. 

Jasídar eru minnihlutahópur Kúrda sem m.a. býr í Írak. Murad er í hópi um 3.000 stúlkna og kvenna úr hópi jasída sem varð fyrir kynferðisofbeldi af hálfu hryðjuverkamanna í landinu árið 2014. 

Í vitnisburði sem hún gaf fyrir bandarísku fulltrúadeildinni árið 2016 lýsti hún því hvernig hún var tekin í gíslingu og nauðgað. Þá sagði hún frá því er móðir hennar og sex bræður voru drepin á einum og sama deginum. 

Murad slapp úr haldi hryðjuverkamannanna og flúði til borginnar Mósúl þar sem íslömsk fjölskylda aðstoðaði hana við að komast frá yfirráðasvæði Ríkis íslams.

331 einstaklingur og stofnanir voru tilnefnd til friðarverðlaunanna í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert