Trump S-Ameríku líklegastur til sigurs

Kjósendur mæta á kjörstað í Rio de Janeiro í morgun.
Kjósendur mæta á kjörstað í Rio de Janeiro í morgun. AFP

We are the champions, sigursöngurinn með bresku hljómsveitinni Queen, ómar undir baráttumyndbandi brasilíska forsetaframbjóðandans Jair Bolsonaro, sem hann birti á Instagram-reikningi sínum fyrr í dag.

Málið hefur vakið nokkra athygli þar sem hinn íhaldssami Bolsonaro er mótfallinn hjónabandi samkynhneigðra en Freddie Mercury, hinn sálugi söngvari Queen, hefur löngum verið talinn viss táknmynd fyrir samkynhneigða. Bolsonaro hefur m.a. sagt að hann myndi frekar vilja að sonur sinn dæi í slysi en að hann væri samkynhneigður, þótt hann hafi í vikunni sagt að hann myndi ef hann næði kjöri stjórna öllum landsmönnum, líka samkynhneigðum.

Sigrar líklega í nótt

Útlit er fyrir að Bolsonaro, sem fjölmiðlar vestanhafs hafa stundum lýst sem hinum brasilíska Donald Trump, muni ná fyrsta sæti í fyrri umferð forsetakosninganna sem hófst í dag. Bolsonaro var fyrir rúmum mánuði stunginn á kosningafundi og var um tíma þungt haldinn. Hann missti því af stórum hluta síðustu lotu kosningabaráttunnar. Það varð honum þó ekki að falli, þvert á móti hefur hann tekið stökk í skoðanakönnunum á síðustu vikum og dögum.

Bolsonaro þegar hann skilaði inn atkvæði sínu fyrr í dag.
Bolsonaro þegar hann skilaði inn atkvæði sínu fyrr í dag. AFP

Þegar Bolsonaro kaus fyrr í dag spáði hann sigri strax í kvöld en ef hann nær hreinum meirihluta atkvæða verður ekki kosið aftur og Bolsonaro því orðinn forseti. Þó að sérfræðingar í Brasilíu segi það ekki útilokað telja þeir það afar ólíklegt og spá því að Bolsonaro og hans helsti keppinautur, Fernando Haddad, muni eigast við í úrslitakosningum að þremur vikum liðnum. 

Haddad kom í stað Luiz Inacio Lula da Silva, fyrrum forseta Brasilíu, sem forsetaefni Verkamannaflokksins eftir að Lula var bannað að taka þátt í kosningunum en hann afplánar nú 12 ára fangelsisvist fyrir spillingu.

Bæði mótmælendur og stuðningsfólk mættu Fernando Haddad þegar hann mætti …
Bæði mótmælendur og stuðningsfólk mættu Fernando Haddad þegar hann mætti á kjörstað í dag. AFP

Tvær andstæðar fylkingar

Á kjörskrá Brasilíu eru tæplega 150 milljónir manna og er lögbundin skylda að kjósa. Sagt er að kjósendur hafi sjaldan, ef nokkurn tímann, skipst í jafn andstæðar fylkingar en eins og áður segir stendur Bolsonaro langt til hægri á hinum pólitíska ási meðan Haddad, fyrrum borgarstjóri Sao Paolo, er á vinstri hluta hans.

Bolsonaro hefur heitið því að berjast gegn glæpum af hörku og vill í því skyni liðka um byssulöggjöf í landinu. Hann vill einkavæða stóran hluta ríkisfyrirtækja Brasilíu í tilraun til að sporna við auknum skuldum ríkisins. Hann hefur talað um pyntingar sem lögmæta aðferð og vill lögleiða dauðarefsingar á ný. Þá hefur hann margoft talað niðrandi um konur og samkynhneigða, auk þess sem hann er mótfallinn fóstureyðingum.

Myndbandið sem Bolsonaro birti í dag. 

View this post on Instagram

- OBRIGADO PELA HOMENAGEM! - UM FORTE ABRAÇO A TODOS OS BRASILEIROS! - DEUS NOS ABENÇOE! . JAIR BOLSONARO 1️⃣7️⃣ 🇧🇷

A post shared by Jair Bolsonaro 17 (@jairmessiasbolsonaro) on Oct 6, 2018 at 7:42pm PDT




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka