Hótar að loka flugvöllum á Ítalíu

Matteo Salvini, formaður Lega Nord og innanríkisráðherra Ítalíu og Marine …
Matteo Salvini, formaður Lega Nord og innanríkisráðherra Ítalíu og Marine Le Pen, formaður frönsku Þjóðfylkingarinnar, eru samstíga í málefnum flóttafólks. Þau ræddu saman við fjölmiðla í morgun í Róm. AFP

Innanríkisráðherra Ítalíu, Matteo Salvini, hótaði í gær að loka flugvöllum landsins eftir að fjölmiðlar birtu fréttir um að Þjóðverjar hygðust senda leiguflugvélar til Ítalíu með hælisleitendur sem hefur verið synjað um hæli í Þýskalandi. 

„Ef einhverjum í Berlín eða Brussel dettur í hug að varpa tugum flóttamanna (migrants) um borð í leiguflugvélar án heimildar til lendingar á Ítalíu þá eiga þeir sömu að vita að það er og verður enginn flugvöllur í boði,“ skrifaði Salvini á Twitter.

„Við munum loka flugvöllunum líkt og við lokuðum höfnum okkar,“ bætti hann við og vísar þar til ákvörðunar ítalskra stjórnvalda frá því í sumar að banna bátum með flóttafólk um borð að koma til hafnar á Ítalíu. 

Salvini skrifar færsluna í kjölfar frétt þýsku fréttastofunnar DPA á laugardag að stjórnvöld í Berlín séu að undirbúa flutning á þeim sem hefur verið synjað um hæli í Þýskalandi til Ítalíu. Fólkið verði sent úr landi með leiguflugi.

Samkvæmt frétt DPA átti fyrsta flugvélin að fara í dag en sú næsta 17. október. Flestir flóttamannanna koma frá Nígeríu og var Ítalía þeirra fyrsti viðkomustaður innan Evrópusambandsins.

Í frétt La Repubblica á laugardag kemur fram að þýska útlendingastofnunin sé að senda bréf til hælisleitenda þar sem fram kemur að þeir verði sendir umsvifalaust til Ítalíu og vísað í ákvæði Dyflinnar-reglugerðarinnar þar að lútandi. Samkvæmt henni geta aðildarríki sent flóttafólk til þess ríkis sem það kom fyrst til. 

Í svari þýska innanríkisráðuneytisins til DPA seint í gærkvöldi kemur fram að ekki standi til að senda hælisleitendur úr landi og til Ítalíu á næstu dögum. 

Þjóðverjar hafa tekið á móti rúmlega milljón hælisleitendum undanfarin þrjú ár en flestir þeirra koma frá Sýrlandi og Írak. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka