Aung San Suu Kyi, leiðtogi Búrma (Mijanmar), hét því í dag að auka gagnsæi varðandi það hvernig stjórnvöld í landinu taki á málefnum rohingja. Suu Kyi tilkynnti þetta í kjölfar leiðtogafundar Asíuríkja í Tókýó.
„Ég er tilbúin að viðurkenna að við þurfum að takast á við áskoranir, sérstaklega í Rakhine-héraði og í baráttunni við að koma á friði,“ sagði Suu Kyi, sem er að reyna að örva erlendar fjárfestingar í Búrma. „Við erum ekki að leyna vini okkar þessum staðreyndum.“
Suu Kyi, sem er meðal friðarverðlaunahafa Nóbels og sem eitt sinn var mærð fyrir baráttu sína fyrir mannréttindamálum í Búrma, sagði í ræðu sinni að hún væri meðvituð um að friður og stöðugleiki yrðu að ríkja í Búrma svo ríkinu takist að höfða til erlendra fjárfesta.
„Við skiljum að friður, sættir, samhljómur, réttarríki og mannréttindi – að öll þessi atriði þurfa að vera tekin með í myndina þegar við leitum aukinnar fjárfestingar fyrir frekari efnahagsleg tækifæri,“ sagði Suu Kyi.
„Við viljum vera mjög opin og gagnsæ gagnvart vinum okkar,“ bætti hún við og biðlaði til þeirra sem áhyggjur hefðu af ástandi mála að ræða þær opinskátt við búrmísk stjórnvöld.
Búrmíski herinn hóf í ágúst í fyrra aðgerðir gegn rohingja-múslimum í Rakhine, sem hafa orðið þess valdandi að rúmlega 700.000 rohingjar flúðu til nágrannaríkisins Bangladess þar sem þeir búa í flóttamannabúðum við þröngan kost.
Stuðningsmenn Suu Kyi segja hana geta gert lítið til að bæta stöðuna, þar sem herinn hafi enn of mikil völd í Búrma.