Eldur kom upp í stærstu olíuhreinsunarstöð Kanada í morgun. Eldurinn kom upp út frá sprengingu en nánari tildrög eldsvoðans eru ekki kunn. Ekki er vitað til þess að fólk hafi slasast við sprenginguna en Irving-olíuhreinsunarfyrirtækið staðfestir á Twitter að um stærðarinnar atvik sé að ræða.
Hreinsunarstöðin er staðsett í Saint John, höfuðborg fylkisins Nýfundnalands. Myndir og myndskeið af sprengingunni hafa verið birtar á samfélagsmiðlum og þar má sjá eldtungur og svartan reyk stíga upp frá hreinsunarstöðinni.
Lögreglan í Saint John er á vettvangi og hefur beðið fólk að vera ekki á ferli í nágrenni við hreinsunarstöðina. Nokkrum götum sem liggja að hreinsunarstöðinni hefur verið lokað.
Spítali í nágrenninu hefur gefið út appelsínugula viðvörun, sem merkir að starfsfólk hans undirbýr sig fyrir mikið aðstreymi sjúklinga. Líkt og fyrr segir hafa engar upplýsingar enn fengist um hvort fólk hafi slasast við sprenginguna.
Rob Beebe, sem býr í grennd við hreinsunarstöðina, sagði í samtali við kanadíska útvarpsstöð að hann hafi fundið hús sitt hristast við sprenginguna.