Rúmlega 15.000 heimili eru án rafmagns í Portúgal eftir að leifar af fellibylnum Leslie gekk yfir mið- og norðurhluta landsins í gærkvöldi. Fjölmörg tré rifnuðu einnig upp með rótum í ofsaveðrinu.
Engar fregnir hafa borist af manntjóni en yfirvöld hafa beðið íbúa um að halda sig innandyra og þá er búið að aflýsa fjölmörgum flugferðum.
Óveðrið er eitt það kraftmesta í sögunni sem hefur farið yfir landið og stefnir það nú í áttin að norðurhluta Spánar, að því er segir á vef BBC.
Vindhraðinn mældist um 50 metrar á sekúndu þegar stormurinn gekk á meginlandið.
Flest heimili sem misstu rafmagn eru í héraðinu Leiria og í útjaðri höfuðborginnar Lissabon. Fleiri svæði hafa þó einnig fundið fyrir áhrifum óveðursins og eru einnig án rafmagns.
Vegna veðursins héldu mörg hundruð manns sig innandyra í listasafninu Figueira da Foz í nótt, þar sem tónleikar fóru fram í gærkvöldi.
Þrátt fyrir óveðrið mun maraþon í höfuðborginni Lissabon fara fram í dag, nema því seinkar um eina klukkustund.
Fram kemur á vef BBC, að það heyri til undantekninga að fellibylur í Atlantshafi nái til lands á Íberíuskaga. Þá er talið að þetta sé öflugasti fellibylur sem hafi skollið á Portúgal af fullum þunga síðan 1842.