Kynjamisrétti, áreitni og ofbeldi í garð kvenna leynist víða í þinghúsum Evrópu. Þetta eru niðurstöður nýrrar könnunar sem unnin var fyrir Evrópuráðsþingið (PACE) og sem birt var í dag.
Könnunin byggir á viðtölum við 123 konur frá 45 Evrópulöndum, 81 þeirra er þingmaður og 42 eru úr starfsliði þings. Fréttastofa CNN fjallar er um könnunina og segir að þó að úrtakið sé lítið veiti það engu að síður sýn inn í vinnumenningu sem einkennist af hótunum um ofbeldi, andlegt áreiti og kynferðisáreiti meðal annarra brota.
Þannig sögðu 47% kvennanna að þær hefðu sætt hótunum um líflát, nauðgun eða barsmíðar og 68% kváðust hafa sætt kynferðislegum athugasemdum tengdum útliti sínu og kyni. 25% höfðu þá orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.
85% þingkvennanna sem tóku þátt í könnuninni sögðust hafa orðið fyrir andlegu ofbeldi í þinginu.
Er könnunin sögð sýna fram á að flest þingin séu ekki með gangverk fyrir konur til að tjá sig.
„#MeToo hreyfingin hefur ekki hlíft stjórnmálaheiminum. Svo lengi sem það ríkir ekki jafnrétti milli karla og kvenna, þá er engin kona örugg fyrir ofbeldi og áreitni,“ hefur CNN eftir Liliane Maury Pasquier forseta PACE. „Við konur og karlar í pólitík erum engu að síður með vogarstöng sem getur gert okkur að afli breytinga,“ bætti hún við og sagði Istanbúl sáttmálann vera lagatæki til að koma í veg fyrir kynjamisrétti.
Í könnuninni kom fram að samfélagsmiðlar væru einn algengasti vettvangur hótanna og áreitni og sögðu 58% hafa orðið fyrir slíku þar.
Yngri konur, þingkonur undir fertugu og kvenkyns starfsmenn þinghúsanna voru berskjaldaðri fyrir áreitni og gátu nefnt fleiri tilfelli niðurlægjandi meðferðar og áreitni á samfélagsmiðlum, sem og kynferðislega áreitni.
Þá voru starfskonur þinghúsanna líklegri til að sæta áreitni en þingkonurnar að því er fram kom í könnuninni. Þannig höfðu 40,5% kvenkyns starfsmanna þinghúsanna orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi en 25% þingkvennanna. Segja höfundar könnunarinnar þetta benda til þess að valdahlutföll eigi einnig þátt í máli.
Þá kom fram í könnuninni að fáar konur höfðu tjáð sig um áreitið. Þannig höfðu aðeins 23,5% þeirra þingkvenna og 6% starfskvenna, sem höfðu sætt kynferðislegri áreitni, tilkynnt um atvikið. Sögðu viðmælendur í nokkrum tilvikum að ferli fyrir slíkar tilkynningar vantaði.