Hauwa Liman var drepin í nótt

Hauwa Liman var ljósmóðir sem starfaði fyrir alþjóðaráð Rauða krossins …
Hauwa Liman var ljósmóðir sem starfaði fyrir alþjóðaráð Rauða krossins í Nígeríu en hún var ljósmóðir. Hún var tekin af lífi í nótt. ICRC

Vígamenn úr sveitum Boko Haram drápu Hauwa Liman sem starfaði fyrir Rauða krossinn í Nígeríu í nótt. Yves Daccord, framkvæmdastjóri alþjóðaráðs Rauða krossins, fjallaði um mál starfssystur sinnar í erindi í Háskóla Íslands í gær. Hauwa var 24 ára gömul þegar hún var drepin en hún var ljósmóðir. Fjallað er um málið í fjölmiðlum víða um heim.

Hauwa Liman var rænt ásamt tveimur öðrum starfskonum hjálparsamtaka í norðausturhluta Nígeríu 1. mars. Í síðasta mánuði var ein þeirra drepin af vígasamtökunum og er því aðeins ein þeirra enn á lífi, Alice Loksha, sem starfar fyrir UNICEF í Nígeríu. Saifura Khorsa, sem starfaði einnig fyrir alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC), var tekin af lífi í síðasta mánuði. Þegar ungu konunum þremur var rænt drápu mannræningjarnir þrjá hjálparstarfsmenn og átta hermenn. 

Yves Daccord, framkvæmdastjóri alþjóðaráðs Rauða krossins.
Yves Daccord, framkvæmdastjóri alþjóðaráðs Rauða krossins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekkert hafði frést af þríeykinu fyrr en í síðasta mánuði þegar ICRC greindi frá því að hafa fengið sent myndskeið af drápinu á Khorsa frá systursamtökum Boko Haram, ISWAP.

ISWAP hótaði síðan að drepa Liman og Loksha sem og 15 ára gamla skólastúlku, Leah Sharibu, sem var rænt úr þorpinu  Dapche í Yobe-ríki í febrúar. 

Á sunnudag sendi ICRC mannræningjunum ákall um að láta konurnar lausar og að sýna miskunn því þeirra starf fælist í að hjálpa samfélögum á átakasvæðum. 

En upplýsingamálaráðherra Nígeríu, Lai Mohammed, hefur nú greint frá því að Hauwa Liman hafi verið tekin af lífi. 

Samkvæmt upplýsingum frá ICRC hafa samtökin ekki fengið þetta formlega staðfest og vonist til þess að þetta sé ekki rétt. Staðan sé skelfileg og hugur þeirra hjá fjölskyldu hennar.

Frétt BBC

Daily Post Nigeria

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka