Blanda hungurs, loftslagsbreytinga og átaka af mannavöldum eru að skapa skelfilegt ástand að sögn David Beasley, yfirmanns matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP). Hann hvetur þjóðir heims til að grípa til aðgerða.
„Það er martröð, það er ofsaveður á leiðinni,“ sagði Beasley í ræðu sem hann hélt fyrir á fundi Sameinuðu þjóðanna í Róm.
Það er stefna Sameinuðu þjóðanna að búið verði að útrýma hungri í heiminum árið 2030. Beasley segir þrjár hindranir í vegi fyrir að þetta takist: stríðsátök, loftslagsbreytingar og að hægt hafi á efnahagsmálum.
Það sé því mikilvægt að grípa til aðgerða. „Börn deyja á 5-10 sekúndna fresti af völdum hungurs eða vannæringar,“ sagði hann.
Á meðan sé matvælum sóað bæði í framleiðsluferlinu og á heimilum fólks.
Svarið fæst ekki bara hér í Róm, heldur líka á heimilum ykkar. Hvað ætlið þið að gera í málinu,“ spurði Beasley.
Efnaðir þjóðir heims geti ekki lengur leyft sér að horfa fram hjá vandanum, því hann hafi áhrif á flóttamannastrauminn. „Um hverja prósentu sem hungur eykst þá eykst flóttamannastraumurinn um tvö prósent,“ bætti hann við.
Níundi hver jarðarbúi, eða um 821 milljónir manna, þjáðust af hungri á síðasta ári og er það þriðja árið í röð sem fjöldinn eykst að því er fram kemur í skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Þá er skortur á snefilefnum, svo nefnt „falið hungur“ sagt hafa áhrif á tvær milljónir manna um heim allan.
Á sama tíma þjást um 600 milljónir manna af offitu og er kostnaðurinn vegna offitufaraldursins verulegur að sögn Jose Graziano da Silva, yfirmanns FAO.