Bandaríkjamenn hafa beðið Tyrki um að fá upptöku sem er sögð hafa að geyma sannanir fyrir því að blaðamaðurinn Jamal Khashoggi hafi verið drepinn í ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í borginni Istanbúl.
„Við höfum beðið um hana, ef hún er á annað borð til,“ sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti við blaðamenn í Hvíta húsinu.
Khasoggi hefur ekki sést síðan hann fór inn í bygginguna 2. október. Stjórnvöld í Sádi-Arabíu neita því að hafa drepið hann.
Sádi-Arabía er einn nánasti bandamaður bandarískra stjórnvalda og því hefur hvarf Khashoggi sett Trump og félaga í erfiða stöðu. Forsetinn á von á því að Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, skili skýrslu um málið en hann heimsótti bæði Tyrkland og Sádi-Arabíu.
Trump á von á því að sannleikurinn í málinu komi í ljós í lok vikunnar. Hann hafnaði því jafnframt að hann væri að verja Sádi-Arabíu í málinu. „Alls ekki, ég vil bara komast að því sem gerðist.“