Ganga þúsundir kílómetra í von um betra líf

Um 2.000 manns ganga saman í hóp og freista þess …
Um 2.000 manns ganga saman í hóp og freista þess að komast til Bandaríkjanna. AFP

Áætlun Arely Orellana er frekar einföld, hún ætlar að halda í norðurátt þangað til hún og tvö fimm ára barnabörn hennar sameinast dóttur hennar einhvers staðar í Houston í Texas í Bandaríkjunum. Til þess þurfa þau hins vegar að ganga um 5.000 kílómetra eða svo.

Orellana og ömmudrengir hennar tveir eru í hópi yfir 2.000 Hondúrasbúa sem freista þess að halda norður eftir í gegnum Gvatemala og Mexíkó í átt að landamærum Bandaríkjanna til þess að sleppa undan ofbeldi og fátækt í heimalandinu. Fólkið gengur meðfram vegum með kerrur og hjólastóla en sumir reyna að fá far með bílum eða rútum sem eiga leið hjá.

AFP

Blaðamaður The Guardian hitti Orellana á göngu í gær en hún virtist ekki mjög vel búin til fararinnar. Eini farangurinn var bakpoki með nokkrum flíkum til skiptanna og skóbúnaðurinn voru slitnar espadrillur.

Hún segist hins vegar ekki hafa aðra kosti í stöðunni. Faðir drengjanna tveggja hafi verið myrtur og það vilji enginn ráða hana, 65 ára gamla konu, í vinnu. „Ég get ekki séð fyrir þeim lengur. Ég er of gömul og fæ ekki vinnu.“

Hún ákvað því að reyna að komast til dóttur sinnar sem flutti frá norðurhluta Hondúras til Bandaríkjanna fyrir þremur árum í leit að vinnu. Hún er með símanúmer dótturinnar skrifað á handlegginn svo hún gleymi því ekki eða týni.

Halda ótrauð áfram þrátt fyrir þreytu og hótanir

Það eru fimm dagar síðan hópurinn lagði af stað frá borginni San Pedro Sula í Hondúras og er langt kominn í gegnum Gvatemala. Þrátt fyrir vaxandi þreytu eru langflestir ákveðnir í því að komast til Bandaríkjanna þar sem þeir ætla að sækja um hæli.

AFP

Fáir virðast meðvitaðir um að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hafi krafist þess að stjórnvöld í löndunum sem gengið er í gegnum stöðvi fólkið. Eða að stjórnvöld í Mexíkó hafi varað við því að hver sá sem komi ólöglega inn í landi verði hnepptur í varðhald og svo vísað úr landi. Trump hefur hótað því að stjórnvöld í Hondúras verði af fjárhagsaðstoð hindri þau ekki að gangan komist á leiðarenda, og jafnframt að loka landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Í gær sendi ríkisstjórn Mexíkó hermenn að landamæraborginni Tapachula með búnað til að takast á við óeirðir. Miðað við viðbúnaðinn virðast yfirvöld í Mexíkó ekki ætla að hleypa göngunni áfram, líkt og gert var við svipaða göngu í apríl. Því hefur hins vegar verið lýst yfir að allir þeir sem eru með gild vegabréf og vegabréfsáritun komist inn í landið og þeir sem ætli sér að sækja um hæli geti hafið það ferli uppfylli þeir ákveðin skilyrði.

Vill geta menntað sig og fengið vinnu

Luz Abigail er einnig í göngunni ásamt ársgömlum syni sínum. „Það er svo erfitt að heyra hann segja: „mamma, ég er svangur“ og vita að ég á bara pening til að kaupa handa honum einn safa,“ segir hún.

AFP

Mario David er 12 ára, en hann er eitt af fylgdarlausum börnum í göngunni. Hann segist hafa yfirgefið Hondúras af því fjölskyldan hans átti engan pening. Því litla sem þau áttu var stolið af glæpagengjum. Hann vonast til að komast til Bandaríkjanna svo hann geti menntað sig og fengið vinnu. Hann veit þó enn ekki hvað hann langar að læra, bara eitthvað sem gefur honum tækifæri á góðri vinnu þar sem hann þénar vel.

„Þessir flutningar munu mistakast“

Gangan hófst síðastliðinn föstudag þegar fyrrverandi þingmaðurinn Bartolo Fuentes tilkynnti það í fjölmiðlum að hann ætlaði að slást í för með 200 manna hópi frá San Pedro Sula á leið til Bandaríkjanna. Hópurinn stækkaði mjög fljótt en fólk finnur til öryggis í fjöldanum, sérstaklega þegar halda á í gegnum Mexíkó þar sem flóttafólki er oft nauðgað og því rænt.

Yfirvöld í Gvatemala höfðu lýst því yfir að fólkinu yrði ekki hleypt yfir landamærin frá Hondúras, en eftir að lögregla hafði reynt að hindra för hópsins hélt hann einfaldlega áfram göngunni. Fuentes var þó handtekinn og færður í vörslu yfirvalda í Gvatemala.

AFP

Í gær birti sendiherra Bandaríkjanna í Gvatemala svo myndband á Facebook þar sem hann varaði fólk við að því að reyna að komast ólöglega inn í Bandaríkin. „Ef þið reynið að komast til Bandaríkjanna þá verðið þið hneppt í varðhald og ykkur vísað úr landi. Snúið aftur til heimalands ykkar. Þessir flutningar munu mistakast,“ sagði hann.

Búist er við því að hópurinn komist að landamærum Mexíkó í kvöld.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert