Náðu að ryðja sér leið inn í Mexíkó

Fólkið lætur óeirðarlögreglu eða hótanir ekki stöðva för sína.
Fólkið lætur óeirðarlögreglu eða hótanir ekki stöðva för sína. AFP

Yfir 2.000 manna hópur Hondúrasbúa sem flúði ofbeldi og fátækt í heimalandinu, og hyggst ganga í gegnum Gvatemala og Mexíkó til að freista gæfunnar í Bandaríkjunum, náði í dag að ryðja sér leið í gegnum landmæri Gvatemala og inn á yfirráðasvæði Mexíkó. Óeirðalögreglan hefur reynt að koma í veg fyrir að fólkið komist yfir brú sem aðskilur löndin tvö að en það gengur illa. AFP- fréttastofan greinir frá.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur krafist þess að stjórnvöld í Gvatemala og Mexíkó stöðvi för fólksins, en hann hefur jafnframt hótað stjórnvöldum í Hondúras því að þau verði af fjárhagsaðstoð leggi þau ekki sitt af mörkum til að koma í veg fyrir að fólkið komist til Bandaríkjanna. Þá hefur Trump einnig hótað því að loka landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

„Við ætlum að komast inn. Við ætlum að komast inn saman,“ hrópaði einn maður í göngunni þegar fólkið ruddist í gegnum hindranir við landamærin.

Í gær birti sendi­herra Banda­ríkj­anna í Gvatemala mynd­band á Face­book þar sem hann varaði fólk við að því að reyna að kom­ast ólög­lega inn í Banda­rík­in. „Ef þið reynið að kom­ast til Banda­ríkj­anna þá verðið þið hneppt í varðhald og ykk­ur vísað úr landi. Snúið aft­ur til heima­lands ykk­ar. Þess­ir flutn­ing­ar munu mistak­ast,“ sagði hann.

Gang­an hófst síðastliðinn föstu­dag þegar fyrr­ver­andi þingmaður­inn Bartolo Fu­entes til­kynnti það í fjöl­miðlum að hann ætlaði að slást í för með 200 manna hópi frá San Pedro Sula á leið til Banda­ríkj­anna. Hóp­ur­inn stækkaði mjög fljótt en fólk finn­ur til ör­ygg­is í fjöld­an­um, sér­stak­lega þegar halda á í gegn­um Mexí­kó þar sem flótta­fólki er oft nauðgað og því rænt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert