Yfir 2.000 manna hópur Hondúrasbúa sem flúði ofbeldi og fátækt í heimalandinu, og hyggst ganga í gegnum Gvatemala og Mexíkó til að freista gæfunnar í Bandaríkjunum, náði í dag að ryðja sér leið í gegnum landmæri Gvatemala og inn á yfirráðasvæði Mexíkó. Óeirðalögreglan hefur reynt að koma í veg fyrir að fólkið komist yfir brú sem aðskilur löndin tvö að en það gengur illa. AFP- fréttastofan greinir frá.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur krafist þess að stjórnvöld í Gvatemala og Mexíkó stöðvi för fólksins, en hann hefur jafnframt hótað stjórnvöldum í Hondúras því að þau verði af fjárhagsaðstoð leggi þau ekki sitt af mörkum til að koma í veg fyrir að fólkið komist til Bandaríkjanna. Þá hefur Trump einnig hótað því að loka landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.
„Við ætlum að komast inn. Við ætlum að komast inn saman,“ hrópaði einn maður í göngunni þegar fólkið ruddist í gegnum hindranir við landamærin.
Í gær birti sendiherra Bandaríkjanna í Gvatemala myndband á Facebook þar sem hann varaði fólk við að því að reyna að komast ólöglega inn í Bandaríkin. „Ef þið reynið að komast til Bandaríkjanna þá verðið þið hneppt í varðhald og ykkur vísað úr landi. Snúið aftur til heimalands ykkar. Þessir flutningar munu mistakast,“ sagði hann.
Gangan hófst síðastliðinn föstudag þegar fyrrverandi þingmaðurinn Bartolo Fuentes tilkynnti það í fjölmiðlum að hann ætlaði að slást í för með 200 manna hópi frá San Pedro Sula á leið til Bandaríkjanna. Hópurinn stækkaði mjög fljótt en fólk finnur til öryggis í fjöldanum, sérstaklega þegar halda á í gegnum Mexíkó þar sem flóttafólki er oft nauðgað og því rænt.