Lögreglu tókst að stöðva för hópsins

Lögregla beitti táragasi á fólkið þegar hún reyndi að hindra …
Lögregla beitti táragasi á fólkið þegar hún reyndi að hindra að það kæmist yfir landamærin. AFP

Þúsundir Hondúrasbúa sem ferðast nú þvert yfir Mið-Ameríku í átt til Bandaríkjanna í leit að betra lífi, eru nú fastir við landamæri Mexíkó og Gvatemala eftir að hafa gert tilraun í gær til að komast inn í Mexíkó. BBC greinir frá.

Einhverjum tókst að brjóta sér leið í gegnum hindranir við landamærin í gær, og grjóti var kastað í lögregluna, en óeirðalögreglan hefur náð að þvinga langflesta til baka meðal annars með því að beita táragasi á hópinn. Einhverjir sneru sjálfviljugir við en aðrir settust niður á brúna sem skilur löndin að, eða köstuðu sér í ána. Nokkrir slösuðust í átökunum; flóttafólk, lögregla og blaðamenn.

„Við erum að flýja undan ofbeldi, svo komum við hingað og fáum líka að finna fyrir því,“ sagði kona úr hópnum í samtali við AFP-fréttastofuna, en hún hafði misst sjónar á tveimur börnum sínum í öngþveitinu.

AFP

„Ég veit ekki hvað gerðist, ég hélt að við ætluðum að fara hér í gegn í friði, en skyndilega voru steinar fljúgandi og táragas um allt,“ sagði annar úr hópnum.

Yfirvöld í Mexíkó hafa lýst því yfir að þeir sem eru með gild vegabréf og vegabréfsáritun fái að komast inn í landið, en það á líklega við fáa í hópum. Aðrir þurfi að sækja um hæli eða snúa til baka. Þeir sem reyni að komast ólöglega inn í landið verði færðir í varðhald og vísað úr landi.

Donald Trump, forseti Bandríkjanna, þakkaði í gær stjórnvöldum í Mexíkó fyrir að stöðva för fólksins. Hann hafði áður krafist þess að fólkið yrði stöðvað áður en það næði að landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Þá hafði forsetinn hótað yfirvöldum í Hondúras því að þau yrðu af fjárhagsaðstoð legðu þau ekki sitt af mörkum til að koma í veg fyrir að fólkið kæmist til Bandaríkjanna. Hann hefur jafnframt hótað að loka landamærum ríkjanna.

AFP

„Þau geta allt eins snúið við núna, þau eru ekki að koma inn í þetta land,“ sagði forsetinn við fréttamenn í gær. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að krísuástand væri yfirvofandi vegna fólksins.

Talið er að hópurinn samanstandi af allt að 3.000 manns, en langflestir eru Hondúrasbúar sem eru að flýja fátækt og ofbeldi í heimalandinu og binda vonir við betra líf í Bandaríkjunum. Vegalengdin sem fólkið hyggst ganga er um 4.500 kílómetrar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert