Franskur unglingur hefur verið ákærður fyrir ofbeldi eftir að myndbandsupptaka var birt, sem sýnir hann beina gervibyssu að kennara sínum. BBC greinir frá.
Atburðurinn átti sér stað í Creteil, einu úthverfa Parísar, og var hann myndaður af einum samnemanda hans sem birti upptökuna síðan á samfélagsmiðlum sl. fimmtudag.
Drengurinn, sem er 15 ára, segir um „brandara“ að ræða og hann hafi ekki vitað að það var verið að mynda hann, að því er franskir fjölmiðlar greina frá. Kennarinn kærði atvikið hins vegar til lögreglu og gaf nemandinn sig fram við lögregluyfirvöld þann sama dag í fylgd föður síns.
VIDEO - "Tu me mets présent." À Créteil, un lycéen menace sa prof avec une arme https://t.co/6OLuiPgjOi pic.twitter.com/RXTcIlTNRT
— BFMTV (@BFMTV) October 21, 2018
Á upptökunni má sjá nemandann beina gervibyssunni að kennaranum sem situr við skrifborð sitt. Hrópar nemandinn á kennarann að hún eigi að merkja við hann í kladdanum. Kennarinn heldur hins vegar áfram að vinna á fartölvu sína og ræða við aðra nemendur í bekknum.
Dagblaðið Parisian segir nemandann hafa verið reiðan að hafa verið skráður fjarverandi eftir að hann mætti of seint í tíma.
Christophe Castaner, innanríkisráðherra Frakklands, fordæmdi atvikið. „Skólinn er vagga lýðveldisins og það er þar sem við lærum að virða lýðveldið,“ sagði Castaner í heimsókn á lögreglustöð í austurhluta Parísar. Hét hann því að „endurheimta lýðveldið fermetra fyrir fermetra“.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði á Twitter atvikið vera „óásættanlegt“.