Donald Trump, forseti Bandaríkjanna segir útskýringar Sádi-Araba á dauða blaðamannsins Jamal Khashoggi „ekki fullnægjandi,“ en greint var frá því á föstudag að Khashoggi hefði látist eftir átök á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl í Tyrklandi. Trump hafði áður sagt að skýringar Sádi-Araba á dauða blaðamannsins væru trúverðugar og mikilvægt fyrsta skref. BBC greinir frá.
Frétt mbl.is: Ofsóttur af hundrað manna tröllabúi
Áður höfðu yfirvöld í Sádi-Arabíu greint frá því að Khashoggi hefði yfirgefið ræðismannsskrifstofuna heill á húfi sama dag og hann kom þangað inn, 2. október síðastliðinn. Á föstudag höfðu sádi-arabískir fjölmiðlar það hins vegar eftir þarlendum ráðamönnum að komið hefði til rifrildis á skrifstofunni og átaka í kjölfarið, sem hefðu leitt til dauða blaðamannsins. Lík hans hefur hins vegar ekki fundist.
Svo virðist sem ekki þyki öllum þessar skýringar trúverðugar, en Khashoggi var mjög gagnrýnin á stjórnvöld í heimalandi sínu. Þá hafa bæði tyrkneskir og bandarískir fjölmiðlar greint frá því að tyrkneska leyniþjónustan hafi í fórum sínum hljóðupptökur þar sem heyra má að Khashoggi hafi verið pyntaður á ræðismannsskrifstofunni og svo drepinn.
„Ég verð ekki sáttur fyrr en við vitum hvað gerðist,“ sagði Trump og bætti við að mögulega yrði gripið til refsiaðgerða. En að hætta við vopnasölusamning við Sádi-Araba myndi skaða Bandaríkin meira en þá.
Þá sagði forsetinn möguleika á því að Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, hefði ekki vitað af morðinu.