Lögreglan í New York eyddi bréfi sem sent var á milljarðamæringinn George Soros í gær. Grunur lék á að sprengja væri í bréfinu.
Samkvæmt frétt BBC var það starfsmaður Soros sem fann pakkann í pósthólfi kaupsýslumannsins og lét lögreglu vita. Atvikið, sem átti sér stað síðdegis í gær, er nú til rannsóknar hjá bandarísku alríkislögreglunni, FBI.
Soros, sem er 88 ára gamall, hefur verið skotmark gagnrýni hægrihópa undanfarið vegna stuðnings hans við frjálslynd viðhorf. Soros var ekki á heimili sínu í Bedford í Westchester- sýslu þegar pakkinn kom þangað.
Í sumar samþykkti ungverska þingið lög sem gera það refsivert að hjálpa ólöglegum innflytjendum að sækja um hæli í landinu. Lögin ganga undir nafninu „Stöðvum Soros“ og er þar vísað til bandarísk-ungverska auðjöfursins George Soros, sem hefur oft verið skotspónn Viktors Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands.
Orbán hefur sakað Soros um að standa á bak við innflutning fjölda manns til Evrópu í því skyni að grafa undan stöðugleika álfunnar. Lögunum sé ætlað að koma í veg fyrir skipulagningu ólöglegs innflutnings til landsins.
Fyrir ári setti Soros 18 milljarða Bandaríkjadala í samtök sín Open Society Foundations. Fyrir tilfærsluna voru eignir Soros metnar á 23 milljarða dala og hefur Soros því látið af hendi um 80% af auðæfum sínum.
Starfsemi samtakanna nær til fleiri en 100 þjóða og snýr að aðstoð við flóttafólk, menntun og frjálsri fjölmiðlun svo fátt sé nefnt. Þau voru stofnuð af Soros sjálfum árið 1984 í samstarfi við Ungversku vísindaakademíuna en hann á ættir sínar að rekja til Ungverjalands.
Soros varð þekktur sem „maðurinn sem knésetti Englandsbanka“ eftir að hafa hagnast um 1 milljarð Bandaríkjadala á skortsölu á breska pundinu.