Vegabréf tekin og fjölskyldutengsl rofin

Kínverskur lögreglumaður stendur vörð við bænahald vegna Eid al-Fitr trúarhátíðarinnar …
Kínverskur lögreglumaður stendur vörð við bænahald vegna Eid al-Fitr trúarhátíðarinnar við Id Kah moskuna í Kashgar. Myndin var tekin í júlí í fyrra. Nú þora fáir að sækja moskuna. AFP

Tveggja km metra löng girðing með 16 varðturnum er utan um kyrrsetningabúðir uighur-múslima í nágrenni smábæjarins Dabancheng í Xinjiang-héraðinu í vesturhluta Kína. Á gervihnattamyndum af svæðinu frá 2015 blasir ekkert við nema eyðimerkurauðnin, en myndir sem teknar voru í apríl á þessu ári sýna að mikil uppbygging hefur átt sér stað.

Umfangsmiklar öryggisbúðir hafa risið á svæðinu og segir í ítarlegri umfjöllun BBC að þær hafi verið orðnar enn stærri er fréttamenn voru þar á ferð núna í október.

Fyrstu fréttir af því að kínversk stjórnvöld héldu úti kyrrsetningarbúðum fyrir þennan minnihlutahóp tóku að berast í fyrra. Er fréttamenn BBC ferðuðust um héraðið nú í haust til að reyna að afla upplýsinga um fjölda kyrrsetningabúða var fylgst með þeim allan tímann. Bílar þeirra voru stoppaðir, þeim sagt að snúa við og mismunandi ástæður gefnar fyrir að þeir gætu ekki haldið för sinni áfram.

Fleiri búðir svipaðar og þær sem eru við Dabancheng hafa risið víðsvegar í héraðinu. Svörin sem fréttamenn fengu er þeir spurðu íbúa borgarinnar hvaða byggingaþyrping þetta væri voru m.a. að þetta væri endurmenntunarskóli. „Það eru tugir þúsunda manna þarna. Þeir eiga í einhverjum vanda með hugsanir sínar,“ sagði einn.

Verð góður borgari þegar ég kemst heim

Kínversk stjórnvöld hafa ítrekað neitað því að uighur-múslimar séu fangelsaðir án dóms og laga og segir BBC yfirvöld nú leggja töluverða vinnu í markaðsstarf fyrir kyrrsetningabúðirnar. Ríkisrekin sjónvarpsstöð birti m.a. fréttir af búðunum þar sem þakklátir nemar í hreinum skólastofum taka viljugir þátt í skólastarfinu.  Ekki er minnst á það hvernig nemendurnir voru valdir í „námið“ né hversu langt það er. Viðtöl við nemendurna minna líka meira á játningar. „Ég skil nú mín mistök,“ sagði einn viðmælenda kínverska ríkissjónvarpsins sem hét því að vera góður borgari „eftir að hann kemst heim“. Kínversk yfirvöld segja hlutverk búðanna vera að taka á öfgatrú í gegnum sambland lögfræðikennslu, starfsþjálfunar og kínverskrar tungu.

Búðirnar eru nær eingöngu ætlaðar uighur-múslimum, minnihluta hópi Kínverja, sem margir hverjir hafa ekki kínversku að móðurmáli og myndbandsupptökur úr búðunum benda til þess að skólaklæðnaður sé skylda, því ekki ein einasta kona sést bera höfuðklút.

Móðurmál uighur múslima er skyldara tyrknesku en kínversku og borgin Kashgar í Xinjiang er landafræðilega nær Bagdad en Peking og menningin ber þess merki. Héraðið, sem er ríkt af af náttúruauðlindum — ekki hvað síst olíu og gasi  á sér líka sögu uppreisnar gegn kínverskri stjórn og samskipti uighur-múslima og kínverskra ráðamanna hafa lengi verið stirð og við og við hefur komið til átaka.

Gervihnattamynd af svæðinu þar sem Dabacheng-búðirnar standa nú. 2015 var …
Gervihnattamynd af svæðinu þar sem Dabacheng-búðirnar standa nú. 2015 var svæðið autt. Skjáskot/BBC
Búðinar eins og þær voru í apríl í ár. BBC …
Búðinar eins og þær voru í apríl í ár. BBC segir þær vera orðnar enn stærri í dag. Skjáskot/BBC



Andlitsgreiningabúnaður og lífkenniupplýsingar

Árás þriggja uighur-múslima á Torgi hins himneska friðar í Peking árið 2013, sem kostaði þá og tvo almenna borgara lífið, virðist hins vegar hafa verið eins konar vendipunktur. Árið eftir létust 31 í árás uighur múslima á lestarstöð í kínversku borginni Kunming, sem er um 2000 km frá Xinjiang.

Síðast liðin fjögur ár hafa kínversk yfirvöld síðan hert löggjöf í Xianjiang héraði, sem jafnframt hefur sætt umfangsmesta öryggiseftirliti sem stjórnvöld hafa beitt eigin borgara. Meðal þeirra aðgerða er beitt er er notkun á and­lits­grein­ing­ar­búnaði, eftirlitsbúnaði sem les innihald farsíma og fjöldasöfnun lífkennaupplýsinga.

Hörðum refsingum er þá beitt til að draga úr iðkun íslamstrúar og hafa síð skegg og höfuðklútar m.a. verið bannað, sem og trúarfræðsla barna og nöfn sem hljóma íslömsk.

BBC segir stjórnvöld nú virðast þeirrar skoðunar a aðskilnaðarstefna sé ekki lengur vandamál nokkurra einangraðra einstaklinga, heldur eigi vandinn sér djúpar rætur í menningu uighur-múslima og íslamstrú almennt. Fréttir af að hundruð uighur-múslima hafi haldið til Sýrlands til að berjast með uppreisnarhópum þar hafa síst dregið úr tortryggni í þeirra garð og sætir þessi minnihlutahópur nú reglulegum athugunum á eftirlitsstöðvum á meðan að kínverskum íbúum er hleypt athugasemdalaust í gegn.

Gert að afhenda lögreglu vegabréf til „öruggrar varðveislu“

Verulegar hömlur eru sömuleiðis settar við ferðafrelsi uighur-múslima bæði innan og utan héraðsins og er þeim raunar gert að afhenda lögreglu vegabréf sín til „öruggrar varðveislu“.

Þá er þeim uighur-múslimum sem gegna opinberum embættum bannað að iðka íslamstrú, sækja moskur eða fasta yfir ramadan trúarhátíðina.

BBC hefur eftir þýska fræðimanninum, Adrian Zenz, sem skoðað hefur fjölda auglýsinga kínverskra stjórnvalda eftir verktökum fyrir byggingu kyrrsetningabúða, að tugir slíkar hafi verið byggðar eða séu í byggingu í héraðinu.

Í mörgum tilfellum sé einnig óskað eftir tilboðum í umfangsmikil öryggiskerfi, eftirlitsturna, gaddavír og  eftirlitskerfi.

Segir Zenz umfangið benda til þess að hundruð þúsunda, og mögulega rúm milljón uighur-múslima og önnur múslíms þjóðarbrot í héraðinu hafi verið vistuð í slíkum búðum, sem stjórnvöld kjósa að kalla endurmenntunarbúðir.

Id Kah moskan í borginni Kashgar í Xinjiang héraði. Fáir …
Id Kah moskan í borginni Kashgar í Xinjiang héraði. Fáir þora lengur að sækja trúarathafnir þar enda fylgjast kínversk yfirvöld náið með. AFP

„Aldrei hringja í mig aftur“

Reyila Abulaiti er uighur-múslimi sem búið hefur í Bretlandi frá 2002. Á síðasta ári kom móðir hennar Xiamuxinuer Pida í heimsókn og naut þess að eyða tíma með barnabörnunum. Xiamuxinuer  er verkfræðingur að mennt og hafði lengi unnið fyrir kínverskt ríkisfyrirtæki.

Eftir að hún flaug heim á ný var Reyila tekið að lengja eftir að heyra í henni og hringdi því í hana. Símtalið var stutt og olli Reyila skelfingu. „Hún sagði mér að lögregla væri að gera húsleit,“ rifjar Reyila upp, en svo virðist sem rannsóknin hafi beinst að henni. Hún þurfti því að senda ljósrit af bresku vegabréfi sínu, staðfestingu á bresku heimilisfangi, símanúmer og upplýsingar um námsferil í Bretlandi út til móður sinnar. Eftir að hafa fengið þetta sent sagði Xiamuxinuer nokkuð sem olli Reyila skelfingu „Ekki hringja aftur í mig,“ sagði hún. „Aldrei hringja í mig aftur.“

Reyila hefur ekki heyrt í móður sinni síðan og telur hana vera vistaða í kyrrsetningarbúðum „Mamma hefur verið hneppt í varðhald að ástæðulausu,“ segir hún. „Eftir því sem ég best veit vilja kínversk stjórnvöld þurrka sérkenni uighur-múslima út.“

BBC ræddi ítarlega við átta uighur-múslima sem búsettir eru erlendis og segir vitnisburð þeirra hafa verið svipaðan. Iðkun trúarbragða, minnsti mótþrói  og öll tengsl við uighur-múslima erlendis virðist duga til að fólk lendi í búðunum.

Barðir fyrir að hlaupa ekki nógu hratt

Ablet Tursun Tohti dvaldi í slíkum búðum. Á hverjum morgni var hann vakinn fyrir sólarupprás og hafði eina mínútu til að koma sér út í garð búðanna. Eftir að hann og aðrir sem þar dvöldu höfðu raðað sér upp  var þeim gert að hlaupa. „Það var sérstakt herbergi fyrir refsingar handa þeim sem ekki hlupu nógu hratt,“ segir hann. „Þar voru tveir menn, annar barði mann með belti og hinn sparkaði.“

Ablet benti  fréttamönnum BBC á æfingagarðinn á gervihnattamyndum af búðunum þar sem hann var í haldi í í bænum Hotan. „Við vorum látin syngja lagið „Án komm­ún­ista­flokks­ins væri ekk­ert Nýja-Kína“ og svo vorum við látin læra lagagreinar. Ef við gátum ekki endurflutt þær rétt vorum við lamin.“

Ablet dvaldi mánuð í búðunum árið 2015 og að mörgu leyti er hann einn hinna heppnu. Endurmenntunarvistin var skemmri á þeim tíma, en að sögn BBC eru fáar fréttir af því að fólk hafi verið útskrifað úr búðunum sl. tvö ár. Fjöldainnkall hefur líka átt sér stað á vegabréfum uighur-múslima frá þeim tíma og var Ablet einn þeirra síðustu sem komst úr landi. Hann hefur óskað eftir hæli í Tyrklandi þar sem þjóðarbrot uighur múslima er nokkuð fjölmennt.

Útilokaðir af spjallsíðum fjölskyldunnar

Hinn 25 ára gamli Ali lenti í búðunum eftir að lögregla fann mynd af konu í niqab slæðu á síma hans. „Þarna var líka gömul kona sem hafði farið í pílagrímsferð til Mekka,“ segir hann. „Og gamall maður sem ekki hafði borgað vatnsreikninginn á réttum tíma.“

BBC segir uighur-múslima utan Xinjiang fá litlar fréttir af fjölskyldum sínum og fréttir af fjölskyldumeðlimum sem hafa verið útilokaðir af spjallsíðum fjölskyldunnar eða hefur verið sagt að hringja aldrei aftur eru orðnar nokkuð algengar.

Bilkiz Hibibullah kom með fimm börnum sínum til Tyrklands árið 2016. Maður hennar og yngsta dóttir urðu eftir í Xinjiang. Dóttirin, sem var bara tveggja og hálfs árs var ekki komin með vegabréf og var meiningin að hún og pabbi hennar kæmu til Istanbúl þegar vegabréfið skilaði sér. Það gerðist aldrei og Bilkis telur mann sinn hafa lent í búðunum í mars í fyrra. Hún hefur nú misst öll tengsl við restina af fjölskyldunni og hefur ekki hugmynd um hvar dóttir hennar er.

„Þegar hin börnin eru farin að sofa þá græt ég,“ segir hún. „Það er ekkert ömurlegra en að vita ekki hvar dóttir manns er, hvort hún sé lífs eða liðin.“

130.000 í einum búðum

Samkvæmt útreikningum sem BBC lét gera á gervihnattamyndum af 44 endurmenntunarbúðum í Xinjiang hefur umfang slíkra búða vaxið um 440 hektara frá 2003. Búðirnar eru líka orðnar töluvert stærri en þær voru áður.  

Sem dæmi nefnir BBC að 14 hektara fangelsissvæði í Los Angeles hýsi tæplega 7.000 fanga og sé horft á búðirnar í Dabancheng, sem nefndar voru í upphafi greinar, megi gefa sér að það geti að lágmarki hýst 11.000 einstaklinga. Það væri með því að hver og einn hefði sér klefa, en öllu líklegra sé að dvalið sé í svefnskálum sem auki umfangið í 130.000 manns í þeim búðum einum og sér.

Engar staðfestar upplýsingar um fjölda þeirra sem í slíkum búðum dvelja eru þó til þar sem kínversk stjórnvöld tjá sig ekki um tilvist þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert