Virkar ekki nema báðir standi við það

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO. AFP

Kjarnorkuvopnasamkomulag Bandaríkjamanna og Rússa frá árinu 1987 skilar, líkt og aðrir samningar, ekki tilætluðum árangri ef einungis annar aðilinn virðir það. Þetta sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), við blaðamenn í Brussel í dag, en Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lýst því yfir að Bandaríkin ætli að segja upp samkomulaginu þar sem Rússar hafi brotið gegn því um árabil.

Bandaríkjamenn segja að Rússar hafi þróað nýja gerð meðaldrægra eldflauga, Novator 9M729, í trássi við samkomulagið og bandamenn þeirra í NATO hafa tekið undir það. Samkomulagið bannar eldflaugar sem draga 500-5500 kílómetra og skotið er af landi. Það nær bæði til eldflauga sem bera kjarnavopn og hefðbundnar sprengihleðslur en eldflaugar sem skotið er úr flugvélum og skipum heyra ekki undir það.

„Samkomulagið virkar ekki ef það er aðeins virt af öðrum aðilanum. Vandamálið, ógnin, áskorunin er framganga Rússa sem hefur viðgengist í langan tíma,“ sagði Stoltenberg. Fram kemur í frétt bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CBS að erfitt gæti reynst að stöðva eldflaugarnar vegna lágrar flughæðar. Hægt væri að hæfa með þeim skotmörk í Evrópu sem og á vesturströnd Bandaríkjanna væru þær staðsettar í Síberíu.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

Stoltenberg sagðist þó ekki sjá fyrir sér, þrátt fyrir áhyggjur af framgöngu Rússa, að komið yrði fyrir fleiri kjarnorkuvopnum í Evrópu til mótvægis. Hins vegar væri NATO að meta stöðuna varðandi öryggi ríkja bandalagsins í ljósi framgöngu rússneskra stjórnvalda. Hann sagði ennfremur að sú skýring lægi beinast við í ljósi tregða Rússa við að ræða um Novator 9M729-eldflaugarnar við NATO að þær brytu gegn samkomulaginu.

Obama sagður hafa leynt þingið upplýsingum

Bandaríkjastjórn hefur einnig kallað eftir Kína verði aðili að kjarnorkuvopnasamkomulaginu en fullyrt hefur verið að þar sem Kínverjar séu ekki aðilar að samkomulaginu hafi þeir farið sínu fram þegar komi að kjarnorkueldflaugum. Bandarísk stjórnvöld telja að þriðjungur eða helmingur kjarnorkueldflauga Kínverja færu gegn samkomulaginu ef Kína ætti aðild að því. Önnur kjarnorkuveldi eru heldur ekki aðilar að samkomulaginu.

Rússnesk stjórnvöld hafa gagnrýnt fyrirætlanir Bandaríkjastjórnar og þvertekið fyrir að hafa brotið gegn kjarnorkuvopnasamkomulaginu. Rússar hafa í kjölfar yfirlýsingar Trumps lýst yfir vilja til þess að taka samkomulagið til endurskoðunar og sníða af því mögulega galla. Rússar hafa sakað Bandaríkjastjórn um að reyna að stilla þeim upp við vegg með því að hóta að segja samkomulaginu upp en því hafa Bandaríkjamenn vísað á bug.

Bandaríkin hafa áður gagnrýnt Rússa fyrir brot gegn kjarnorkuvopnasamkomulaginu. Forveri Trumps á forsetastóli, Barack Obama, var fyrstur til þess en hins vegar greip ríkisstjórn hans ekki til neinna aðgerða vegna þess. Fram kemur í bandaríska viðskiptablaðinu Wall Street Journal að ríkisstjórn Obama hafi áður leynt öldugadeild Bandaríkjaþings upplýsingum um brot Rússa í tengslum við gerð nýs afvopnunarsamnings 2010.

Trump hefur gagnrýnt Obama harðlega fyrir aðgerðaleysið. Sagðist forsetinn á dögunum ekki skilja hvers vegna Obama hafi ekki annað hvort sagt kjarnorkuvopnasamkomulaginu upp eða samið um málið upp á nýtt í ljósi ítrekaðra brota Rússa gegn samkomulaginu. Bolton hefur þó lýst því yfir að Bandaríkin muni ráðgast við bandamenn sína áður en tekin verði endanleg ákvörðun um það hvort samkomulaginu verði sagt upp.

John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna.
John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert