Írar ætla að þrengja að AirBnB

Írski fáninn að húni við skrifstofur ríkisstjórnarinnar í miðborg Dyflinnar.
Írski fáninn að húni við skrifstofur ríkisstjórnarinnar í miðborg Dyflinnar. AFP

Írska ríkisstjórnin kynnti í dag áætlanir sem ætlað er að mæta miklum húsnæðisvanda í helstu borgum landsins. Nýjar reglur, sem áætlað er að taki gildi í júní á næsta ári, munu koma í veg fyrir að hver einstaklingur geti boðið út fleiri en eina eign í skammtímaleigu á síðum á borð við AirBnB, auk þess sem útleigudagar íbúðarhúsnæðis verða takmarkaðir við 90 á ári, rétt eins og hér á landi.

Ríkisstjórnin segir að með þessu móti muni AirBnB virka eins og því var ætlað að virka; sem vettvangur fyrir fólk til að leigja út heimili sín til skamms tíma. Húsnæðisráðuneytið segir að á síðustu árum hafi of margar leiguíbúðir færst af almennum leigumarkaði og yfir á skammtímaleigumarkaðinn.

AirBnB ósátt

AirBnB segir í yfirlýsingu að írska ríkisstjórnin fari vill vegar. Fyrirtækið heldur því fram að skammtímaleiga húsnæðis hafi ekki valdið þeim sögulega mikla húsnæðisvanda sem Írar standa frammi fyrir og segir jafnframt að margir Írar muni verða fyrir fjárhagstjóni fylgi ríkisstjórnin þessum áætlunum eftir þar sem útleiga íbúða til ferðamanna sé hryggjarstykkið í atvinnulífi margra samfélaga.

Dyflinni dýrari en Reykjavík

Í frétt AFP kemur fram að á síðasta ári hafi meðalleiguverð á tveggja herbergja íbúð í Dyflinni verið 1.550 evrur, eða rúmar 210.000 íslenskar krónur á gengi dagsins í dag og byggir það á tölum frá Eurostat.

Til samanburðar var meðalleiguverð sambærilegrar íbúðar í Reykjavík 158.500 krónur, samkvæmt þessum sömu samanburðartölum Eurostat.

Almenningur hefur krafist aðgerða

Húsnæðismarkaðurinn á Írlandi hefur verið erfiður allt frá kreppunni árið 2008 og verulega hefur hægst á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Almenningur á Írlandi hefur verið óþreyjufullur vegna þess hve hátt leiguverð í helstu borgum er orðið.

13. október síðastliðinn réðust mótmælendur til að mynda inn í Evrópuhöfuðstöðvar AirBnB í Dublin og kröfðust aðgerða. Hópurinn, sem kallar sig „Tökum borgina til baka“ (e. Take back the city), sagði að bandaríska stórfyrirtækið hefði lagt undir sig stóran hluta borgarinnar, eins og nýlendu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert