Maður sem áreitti konu um borð í flugvél Ryanair í síðustu viku og kallaði hana meðal annars „ljótan svartan bastarð“ hefur beðist afsökunar á hegðun sinni og kveðst ekki vera haldinn kynþáttafordómum.
Atvikið var tekið upp á myndband og því deilt á samfélagsmiðlum. Fjölmargt fólk varð ævareitt og ætlar að sniðganga Ryanair vegna aðgerðaleysis, enda hefði átt að vísa manninum frá borði. BBC greinir frá.
David Mesher, sem áreitti konuna og sagðist vera „sama þótt hún væri fjandans fötluð“, kom fram í morgunspjallþættinum Good Morning Britain í morgun og sagðist alls ekki vera rasisti og það hefði aðeins fokið í sig þegar konan hefði ekki staðið upp fyrir sér.
Fórnarlambið, Delsie Gayle, og dóttir hennar, sem var með henni í fluginu, hafa ekki samþykkt afsökunarbeiðni Meshers og segja að hann hefði aldrei látið þessi orð falla væri hann ekki rasisti.