Þiggur ekki boð í Hvíta húsið

Hatice Cengiz.
Hatice Cengiz. AFP

Unnusta sádi­ar­ab­íska blaðamanns­ins Jamals Khashogg­is, Hatice Cengiz, segist hafa hafnað boði Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í Hvíta húsið. Hún segir að forsetinn hafi ekki verið hreinskilinn varðandi rannsókn morðsins á Khashoggi.

Jamal Khashoggi var myrt­ur á ræðismanns­skrif­stofu Sádi-Ar­ab­íu í Ist­an­búl í Tyrklandi í byrj­un þessa mánaðar. Ríkissaksóknari Sádi-Arabíu sagði í gær að Khashoggi hefði verið myrt­ur að yf­ir­lögðu ráði.

Cengiz sagði að tilgangur boðsins frá Trump væri að reyna að hafa áhrif á almenningsálitið í Bandaríkjunum. Yfirvöld í Sádi-Arabíu neita því að konungsfjölskyldan eigi einhvern þátt í dauða Khashoggis sem þau segja að hafi verið ósamþykkt aðgerð.

Jamal Khashoggi.
Jamal Khashoggi. AFP

Cengiz skrifaði grein í New York Times fyrr í mánuðinum. Þar kom meðal annars fram að ef Trump reyndi af fullri alvöru að útskýra hvað gerðist á ræðismannsskrifstofunni daginn sem unnusti hennar var myrtur myndi hún íhuga að þiggja boð hans.

Trump hefur sagt að hann sé ekki fullkomlega sáttur við skýringar Sádi-Araba. Hann segist hafa íhugað einhverjar refsiaðgerðir vegna málsins en ítrekar mikilvægi sambands landanna.

Krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman.
Krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman. AFP

Hann hefur enn fremur sagt að það sé mögulegt að krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman, hafi ekki vitað um morðið. Khashoggi hafði gagnrýnt yfirvöld í Sádi-Arabíu opinberlega og að hann óttaðist handtöku vegna gagnrýni sinnar á yfirvöld.

Í viðtali einungis þremur dögum fyrir morðið sagði hann að þeir sem væru handteknir væru ekki einu sinni andófsmenn. Þeir væru einfaldlega með sjálfstæða hugsun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert