Að minnsta kosti fjórir eru látnir, samkvæmt AFP-fréttaveitunni, eftir að byssumaður hóf skothríð í bænahúsi gyðinga í Pittsburgh í Bandaríkjunum fyrr í dag. Maðurinn var handtekinn eftir skotbardaga við lögreglu, þar sem þrír lögregluþjónar urðu fyrir skoti.
Guðsþjónusta var í gangi þegar árásin var gerð. Talsmaður lögreglunnar í Pittsburgh staðfestir að nokkrir hafi látist í árásinni.
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í kjölfar árásarinnar að hann fordæmdi „hatur“ í Bandaríkjunum. Hann sagði enn fremur að árásarmaðurinn ætti dauðarefsingu skilið.
Kona sagði í samtali við CNN að dóttir hennar hefði verið ein þeirra sem hlupu niður í kjallara byggingarinnar þegar þau heyrðu fyrstu skotin.
„Þau eru óhult en þau heyrðu skothríðina og allt annað sem gekk á,“ sagði konan.
Samkvæmt frétt AFP er ástæða árásarinnar óljós. Þó hefur árásum á gyðinga og hatursglæpum farið fjölgandi í Bandaríkjunum undanfarin ár.