Ákærður fyrir árásina í Pittsburgh

Frá vettvangi við bænahúsið í gær.
Frá vettvangi við bænahúsið í gær. AFP

Maðurinn sem myrti ellefu manns í bænahúsi gyðinga í Pittsburgh í gær hefur verið ákærður af saksóknara í Pennsylvaníu. Er maðurinn, sem heitir Robert Bowers, ákærður fyrir ellefu morð og 18 önnur brot, meðal annars hatursglæpi. Gæti hann átt yfir höfði sér dauðarefsingu að því er saksóknari segir.

Sex aðrir, þar af fjórir lögreglumenn, særðust í árás mannsins á bænahúsið. Hóf Bowers skothríð og hrópaði ókvæðisorð um gyðinga meðan á árásinni stóð. Hafa miðlar á svæðinu greint frá því að vitni hafi heyrt hann öskra að allir gyðingar skyldu deyja þegar hann gekk inn í bænahúsið.

Var Bowers vopnaður vélbyssu og þremur skammbyssum. Sérsveit lögreglu mætti á vettvang um 20 mínútum eftir að fyrst var tilkynnt um árásina og var Bowers þá á leið úr bænahúsinu. Endaði það með umsátri þar sem Bowers og lögreglan skiptust á skotum. Gafst hann upp nokkru síðar og var fluttur á sjúkrahús, en talið er að hann hafi hlotið nokkur skotsár.

Mikill fjöldi fólks safnaðist saman í Pittsburgh í gær til …
Mikill fjöldi fólks safnaðist saman í Pittsburgh í gær til að sýna samstöðu og mótmæla ofbeldi. AFP

Bowers er 46 ára og var virkur á samfélagsmiðlinum Gab sem er vinsæll meðal öfgamanna og lýst sem samfélagsmiðli sem ritskoði ekkert efni. Hafði hann meðal annars skrifað margar færslur þar sem tengdust gyðingahatri og endurbirt færslur þar sem gyðingum var sagt að yfirgefa landið.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt árásina óhugnanlegt fjöldamorð og ætlar hann að heimsækja Pittsburgh fljótlega. Þá hefur hann gefið út skipun þess efnis að flaggað verði í hálfa stöng á opinberum byggingum til 31. október.

Árásin er sú mannskæðasta sem beint er gegn gyðingum á síðustu áratugum í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert