Á verðlaunahátíð eftir að Leicester hafði óvænt unnið ensku úrvalsdeildina árið 2016, fögnuðu leikmenn, starfsliðið og boðsgestir árangrinum innilega.
Fögnuðurinn varð enn meiri þegar tilkynnt var að eigandi félagsins, Taílendingurinn Vichai Srivaddhanaprabha, hefði látið einnar milljónar punda styrk af hendi rakna til konunglega sjúkrahússins í Leicester, eða rúmar 150 milljónir króna.
„Hann var milljarðamæringur, mjög ríkur og farsæll maður,“ sagði Ian Stringer, blaðamaður BBC, sem var staddur á hátíðinni. „En hann var einnig mjög auðmjúkur og indæll.“
Félagið syrgir nú hinn 61 árs eiganda sem fórst í þyrluslysi skammt frá leikvangi félagsins, King Power Stadium, á laugardaginn. Að sögn lögreglunnar í Leicester er talið að einnig hafi farist í slysinu tveir úr starfsliði Vichai, eða Nursara Suknamai og Kaveporn Punpare, ásamt flugmanninum Eric Swaffer og kærustu hans Izabela Roza Lechowicz.
Eignir Srivaddhanaprabha voru metnar á 3,8 milljarða dala, eða um 460 milljarða króna. Hann var stjórnarformaður fríhafnar-fyrirtækisins King Power International Group, að því er segir í frétt BBC.
Hann keypti Leicester árið 2010 fyrir 39 milljónir punda og greiddi upp allar skuldir félagsins. Fjórum árum síðar komst félagið upp í ensku úrvalsdeildina. Þegar það vann úrvalsdeildina tímabilið 2015-16 voru líkurnar á sigri 5.000 á móti einum og því um ótrúlegt íþróttaafrek að ræða.
Hann var einn ríkasti maður Taílands, hlédrægur og veitti mjög sjaldan viðtöl. „Frægð hans jókst til muna og ímynd hans varð enn betri með þessum frábæra árangri sem Leicester náði árið 2016,“ sagði Jonathan Head, sem starfar hjá BBC í Suðaustur-Asíu. „Skuldbinding hans gagnvart félaginu var óumdeild.“
„En hérna á Taílandi var hann þekktari fyrir annað. Hann var mjög þekktur fyrir að stofna King Power, sem hefur mjög umdeilda einokunarstöðu varðandi fríhafnarverslanir í Taílandi. Salan í verslununum hefur aukist mikið samhliða mikilli fjölgun ferðamanna á síðustu 20 til 30 árum,“ sagði hann við BBC.
„Honum var umhugað um einkalíf sitt og mikil leynd hvílir yfir fyrirtækinu. Það er ekki mikið vitað um hann. Hann stofnaði fyrirtækið árið 1989 og varð fljótt ríkur.“
Srivaddhanaprabha, var af kínverskum ættum, átti fjögur börn og hafa þau öll starfað hjá King Power, sem Head segir að sé dæmigert fjölskyldurekið kínverskt fyrirtæki.
„Hann veitti aldrei viðtöl,“ bætti Head við. „Þannig að þrátt fyrir að hann hafi verið dáður í Leicester var hans eins konar ráðgáta.“
Eigandinn flaug á heimaleiki Leicester á þyrlu sinni frá húsi sínu í London eða hinu húsinu sínu í Berkhire, þar sem hestarnir hans voru geymdir.
„Hann elskaði að búa í Bretlandi og elskaði lífsstílinn sem gríðarleg auðæfi hans gátu veitt honum,“ sagði Head. „Hann var mikill áhugamaður um vín, hann hafði gaman af fjárhættuspilum og elskaði hesta.“
„Hann sást oft með bresku konungsfjölskyldunni og fór með syni sína á pólóleiki. Hann hafði mjög gaman af lífsstíl fræga fólksins og elítunnar í Bretlandi.“
Hann sagði að orðspor Srivaddhanaprabha bæði í Bretlandi og á Taílandi sem gjafmilds manns sem lét fé af hendi rakna til ýmissa verkefna í samfélaginu hafi vakið athygli taílensku konungsfjölskyldunnar.
Srivaddhanaprabha vakti einnig athygli í Leicester fyrir að fá taílenska búddamunka til að blessa leikmenn fyrir leiki í von um að færa þeim heppni.
„Ég er heimamaður. Ég hef fylgst með félaginu í um tíu ár og ég man eftir þegar þau tóku við félaginu og ég átti í samskiptum við þau. Ég hef hitt þau í Taílandi og í Bangkok og þau eru mjög gott fólk,“ sagði Stringer um Srivaddhanaprabha-fjölskylduna.
„Hann hélt upp á afmælið sitt með því að mæta með köku. Hann keypti drykki fyrir stuðningsmenn liðsins sem fóru á útileikina, keypti morgunmat og trefla fyrir þá sem fóru á þessa leiki.“
„Síðustu tíu daga hafði borgarráð samþykkt þróun nýs 100 milljóna punda æfingasvæðis. Eigandinn var bjargvættur félagsins og fór með það upp í hæðir sem enginn hafði búist við.“