Um hálf milljón Evrópubúa deyr fyrir aldur fram af völdum loftmengunar, að því er fram kemur í skýrslu evrópsku umhverfisstofnunarinnar (EEA). Þó að hægt sé tekið að draga úr loftmengun í ríkjum Evrópusambandsins er mengunin engu að síður enn sögð vera langt yfir markmiðum ESB og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).
Loftmengun er sögð vera ein aðalástæða ótímabærra dauðsfalla í 41 Evrópuríki og er „allt of há“ að sögn skýrsluhöfunda. Niðurstöðurnar eru frá árinu 2015 og byggja á 2.500 gögnum.
„Loftmengun er ósýnilegur morðingi og við verðum að leggja aukna áherslu á að taka á vandanum,“ hefur BBC eftir Hans Bruyninckx, forstjóra EEA.
Ekki er langt síðan framkvæmdastjórn ESB greindi frá því að flest hinna 28 ríkja Evrópusambandsins uppfylltu ekki staðla ESB um loftgæði. Varaði hún raunar við að loftslagsgæði í sumum ríkjum Austur-Evrópu væru verri en í Kína eða á Indlandi.