Robert Bowers, árásarmaðurinn sem drap 11 manns í Pittsburgh um helgina, kom fyrir dómara í hjólastól í dag. Hann hefur verið kærður fyrir 29 alríkisglæpi.
Hann var fluttur á spítala eftir árásina sem hann gerði á bænahús gyðinga. Á meðan á árásinni stóð hrópaði hann ókvæðisorð að gyðingum og sagðist meðal annars „bara vilja drepa gyðinga“.
Samkvæmt frétt AFP-fréttaveitunnar virkaði Bowers fölur í dómsal. Hann sagði lítið annað en „já“ við formlegum spurningum dómara.
Bowers hafði ítrekað lýst yfir hatri á gyðingum á samfélagsmiðlinum Gab. Í frétt AFP kemur fram að skrif hans þar séu einkennandi fyrir öfgahægrimenn fulla af samsæriskenningum og þá sem hafa ofurtrú á hvíta kynstofninum.
Hann hafði til að mynda sakað gyðinga um að koma með múslima til Bandaríkjanna. „Ég get ekki setið hjá og horft á þá slátra mínu fólki. Ég ætla inn,“ skrifaði Bowers á Gab stuttu áður en hann réðst inn í bænahúsið.