Hvíta húsið neitar því alfarið að talsmáti og orðfæri Donald Trumps Bandaríkjaforseta eigi nokkurn þátt í skotárásinni á bænahús gyðinga í Pittsburgh þar sem 11 manns létu lífið á laugardag. BBC greinir frá.
Sagði fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, Sara Sanders, hreina „svívirðu“ að gefa í skyn að skotárásin væri Trump eða orðfæri hans að kenna.
Sanders sagði forsetann og forsetafrúna, Melaniu Trump, vera væntanleg í heimsókn til Pennsylvaniu á morgun.
Árásin hefur verið sögð mannskæðasta árás á gyðinga í sögu Bandaríkjanna.
Robert Bowers, árásarmaðurinn sem drap 11 manns í Pittsburgh, kom fyrir dómara í hjólastól í dag. Hann hefur verið kærður fyrir 29 alríkisglæpi.
Hann var fluttur á spítala eftir árásina. Meðan á árásinni stóð hrópaði hann ókvæðisorð að gyðingum og sagðist meðal annars „bara vilja drepa gyðinga“.
„Forsetinn ber ekki ábyrgð á þessum atburði,“ sagði Sanders ítrekað á fundi með fjölmiðlum í dag, eftir að einn fjölmiðlamannanna spurði hana hvort orðfæri forsetans gæti átt sinn þátt í árásinni eða nýlegum bréfasprengjum sem sendar voru þekktum einstaklingum.
„Ég tel óábyrgt að kenna forsetanum og ríkisstjórn hans um þessa svívirðilegu atburði,“ sagði Sanders
Segir BBC rödd Sanders hafa verið tilfinningaþrungna er hún ræddi um það hve mikið forsetinn „dái“ bandaríska gyðinga.