Feneyjar voru á floti í gær

Frá Markúsartorgi í Feneyjum. Þar náði vatnsborðið 156 sentimetra hæð …
Frá Markúsartorgi í Feneyjum. Þar náði vatnsborðið 156 sentimetra hæð í gær þegar mest lét, samkvæmt mælingum heimamanna. AFP

Að minnsta kosti fimm manns létust í óveðri sem gekk yfir Ítalíu í gær, meðal annars tveir nærri höfuðborginni Róm í tveimur slysum þar sem tré féllu á bifreiðar. Sterkir vindar frá Afríku gengu yfir landið og þeim fylgdu gríðarlega miklar rigningar.

Óveðrið olli flóðum í Feneyjum og AFP-fréttaveitan hefur eftir yfirvöldum þar í borg að vatnsyfirborðið á Markúsartorgi, einum vinsælasta áfangastað ferðamanna á gjörvallri Ítalíu, hafi náð 156 sentimetra hæð er mest lét í gær. Frá upphafi mælinga hefur vatnsborðið þar einungis fimm sinnum náð 150 sentimetra hæð.

Síkin í Feneyjum flæddu víða yfir bakka sinna, sem gerði borgarbúum og ferðamönnum erfitt fyrir. Margir klæddust stígvélum eða plastpokum er þeir óðu um vatnsflauminn á götunum, en aðrir kusu þann kost að klæða sig einfaldlega úr sokkum og skóm.

Feneyjar eru höfuðborg Veneto-héraðs. Héraðsforsetinn Luca Zaia sagði í gær að staðan gæti verið verri en þegar mikil flóð urðu í héraðinu árið 2010, en skólum var lokað í héraðinu í gær, eins og reyndar líka í Róm, Genúa og Messina á Sikiley.

Myndir frá flóðunum í Feneyjum má sjá hér að neðan.

Ferðamenn á vappi nærri Markúsartorgi í Feneyjum í gær.
Ferðamenn á vappi nærri Markúsartorgi í Feneyjum í gær. AFP
Göngubrýr voru settar upp til þess að fólk kæmist leiðar …
Göngubrýr voru settar upp til þess að fólk kæmist leiðar sinnar án þess að blotna. AFP
Kona ber ferðatösku sína nærri Markúsartorgi í Feneyjum í gær.
Kona ber ferðatösku sína nærri Markúsartorgi í Feneyjum í gær. AFP
Ferðamenn í Feneyjum í gær.
Ferðamenn í Feneyjum í gær. AFP
Nærri Rialto-brúnni í Feneyjum. Hér sést glögglega hvernig vatn flæddi …
Nærri Rialto-brúnni í Feneyjum. Hér sést glögglega hvernig vatn flæddi upp úr síkjum borgarinnar og inn á gangstéttir. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert