Rannsaka börn án handleggja

Heilbrigðisráðherra Frakka segir mikilvægt að komast að orsökum fæðingargallanna.
Heilbrigðisráðherra Frakka segir mikilvægt að komast að orsökum fæðingargallanna. AFP

Frönsk stjórnvöld hafa hafið rannsókn á fæðingargöllum tuga barna sem lýsa sér þannig að þau hafa fæðst án handleggja eða handa. Svo virðist sem framhluti handleggjanna nái ekki að þroskast eðlilega á meðgöngunni. Fæðingargallarnir hafa komið upp í þremur héruðum í Frakklandi; Ain, Bretagne og Loire-Atlantique. BBC greinir frá.

Gallarnir hafa verið rannsakaðir áður, en eftir að fleiri tilvik komu upp á yfirborðið var ákveðið að fara í umfangsmeiri og heildstæðari rannsókn á orsökum gallana.

Agnes Buzyn, heilbrigðisráðherra Frakklands, sagði í sjónvarpsviðtali í dag að málið varðaði almannheill og mikilvægt væri að komast að orsökunum. Hún sagðist búast við því að fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar lægu fyrir í janúar á næsta ári og svo bætti búast við frekari niðurstöðum um sumarið. Mikið hefur verið fjallað um fæðingargallana og mögulegar orsakir í frönskum fjölmiðlum.

„Ég held að allir Frakkar vilji vita ástæðuna. Við munum ekki útiloka neitt. Kannski hefur þetta eitthvað að gera með umhverfið eða hvað mæðurnar drukku eða borðuðu á meðgöngunni. Jafnvel loftið sem þær önduðu að sér. Eins og staðan er núna viljum við bara komast til botns í málinu,“ sagði Buzyn.

Ryan, sem nú er átta ára, er eitt barnanna í Ain sem fæddist án fremsta hluta handleggsins. Foreldrar hans sögðu í samtali við fréttastöðina Franceinfo að gallinn hefði ekki sést við hefðbundna ómskoðun á meðgöngu. Hann kom einfaldlega í ljós þegar Ryan fæddist og læknarnir höfðu engar skýringar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert