Eiginmaður Asia Bibi frá Pakistan, sem var sýknuð af ákæru um guðlast eftir að hafa verið í átta ár á dauðadeild, hefur sótt um hæli í Bretlandi, Bandaríkjunum og í Kanada.
Í myndbandsskilaboðum sagðist Maish óttaðist um öryggi fjölskyldu sinnar í Pakistan. „Ég bið forsætisráðherra Bretlands um að hjálpa okkur og veita okkur frelsi ef hann getur,“ sagði hann og bað leiðtoga Kanada og Bandaríkjanna einnig um hjálp, að sögn BBC.
Maish hafði áður sagt í viðtali við þýska fjölmiðilinn DW að hann og fjölskylda hans væru hrædd eftir að pakistönsk stjórnvöld gerðu samning við harðlínuflokkinn Tehreek-i-Labiak um að binda enda á mótmæli vegna sýknudómsins yfir Bibi. Samningurinn kveður meðal annars á um að embættismenn munu leggja grunninn að því að meina henni að yfirgefa landið. Stjórnvöld munu heldur ekki koma í veg fyrir að mótmælendur áfrýi ákvörðun Hæstaréttar um að sleppa henni úr haldi.
„Ég fékk hroll um allan líkamann eftir að ég frétti af samkomulaginu,“ sagði Masih. „Það er rangt að setja fordæmi um að beita dómsvaldinu þrýstingi.“
Bibi, sem tilheyrir minnihluta kristinna í Pakistan, var dæmd fyrir guðlast árið 2010 eftir að hafa lent í rifrildi vegna vatnsskálar.
Breski þingmaðurinn Tom Tugendhat, sem er formaður utanríkismálanefndar breska þingsins, hefur beðið stjórnvöld um að „meta stöðuna í snarhasti“.