Spennan að ná hámarki vestra

Frambjóðendur repúblikana og demókrata hafa í dag keppst við að ná til eyrna kjósenda fyrir komandi þingkosningar sem fara fram í Bandaríkjunum á þriðjudag. Margir líta á kosningarnar atkvæðagreiðslu þar sem fyrstu tvö ár Donalds Trumps í stóli Bandaríkjaforseta verða gerð upp.

Trump hefur tekið mjög virkan þátt í kosningabarátttu repúblikana sem og Barack Obama, forveri hans í Hvíta húsinu, sem hefur reynt að sannfæra kjósendur um að greiða demókrötum sín atkvæði. 

Báðar fylkingar eru sammála um það að kjörsókn muni ráða úrslitum. Kosningaáhuginn vestra hefur sjaldnast verið meiri og í nokkrum ríkjum er þátttaka í utankjörfundaratkvæðagreiðslum langt yfir meðallagi. 

„Þetta snýst allt um kjörsókn,“ segir öldungadeildarþingmaðurinn og demókratinn Chris Van Hollen. Demókratar segja að þeir eigi á brattann að sækja til að ná meirihluta í öldungadeildinni.  Demókratar eru aftur á móti líklegir til að ná aftur yfirráðum í fulltrúadeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert