Rasistaáróður og villandi upplýsingar

AFP

Facebook hefur lokað um 30 síðum og 85 til viðbótar á Instagram eftir að lögregla varaði fyrirtækið við því að síðurnar gætu tengst erlendum aðilum sem væru að reyna að hafa áhrif á þingkosningarnar í Bandaríkjunum.

Tilkynning Facebook barst skömmu eftir að bandaríska lögreglan og leyniþjónustustofnanir vöruðu Bandaríkjamenn við tilraunum Rússa við að dreifa lygafréttum. Kosið er í Bandaríkjunum í dag.

Rannsókn sem birt var í síðustu viku sýnir að muna meira er um að villandi upplýsingum sé dreift á samfélagsmiðlum nú heldur en fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2016. Þá voru Rússar sakaðir um áróðursherferð til stuðnings Donald Trump sem var síðan kjörinn forseti Bandaríkjanna.

Að sögn yfirmanns netöryggismála hjá Facebook, Nathaniel Gleicher, voru allar síðurnar sem var lokað á sunnudagskvöld á frönsku og rússnesku og allt bendi til þess að um samhæfðar síður á Facebook sé að ræða. Á Instagram voru þær aftur á móti flestar á ensku og beindu sjónum sínum að fræga fólkinu.

Á laugardag greindu forsvarsmenn Twitter frá því að þeir hefðu eytt talsverðu magni að Twitter-síðum sem notaðar voru til þess að dreifa villandi upplýsingum. 

Á sama tíma hafa margar sjónvarpsstöðvar sem og Facebook stigið það óvanalega skref að hafna að birta auglýsingum frá stjórnmálateymi Trumps þar sem skilaboð auglýsingarinnar eru þau að innflytjendur séu hættulegir. Að bandarísku þjóðinni stafi ógn af þeim.

Auglýsingin sem er hálf mínúta að lengd endurspeglar viðvaranir forsetans um lest hælisleitenda í Mexíkó. Skoðun forsetans þykir bæði rasísk og misvísandi en hann birti lengri útgáfu hennar í síðustu viku.

Auglýsingin var birt á NBC og Facebook um helgina en í gær var lokað fyrir birtinguna og hún fjarlægð þar sem hún stæðist ekki þær kröfur sem gerðar væru hjá fyrirtækjunum. CNN neitaði að birta hana yfir höfuð og sögðu stjórnendur sjónvarpsstöðvarinnar að hún væri rasísk. Fox News hefur einnig hætt að sýna hana og var tilkynnt á sunnudag að hún myndi hvorki birtast á Fox News Channel eða Fox Business Network.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert