Raunverulega hætta á „Polexit“

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins.
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins. AFP

„Hættan er mjög raunveruleg, dauðans alvara. Polexit er möguleiki,“ sagði Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins og fyrrverandi forsætisráðherra Póllands, í Varsjá, höfuðborg landsins, í gær og vísaði þar til þess möguleika að Pólland gangi úr sambandinu.

Með „Polexit“ er vísað til hugtaksins „Brexit“ sem notað hefur verið um fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu í kjölfar þjóðaratkvæðis í landinu sumarið 2016, en Bretar stefna að því að segja formlega skilið við sambandið 29. mars á næsta ári.

Tusk sagði að hættan fælist í því að Pólland gengi úr Evrópusambandinu án þess að stefnt væri að því vegna deilna undanfarin misseri á milli pólsku ríkisstjórnarinnar og framkvæmdastjórnar sambandsins um fyrirkomulag dómsmála í landinu.

Ríkisstjórn Póllands hefur unnið að því að gera róttækar breytingar á dómskerfi landsins sem Evrópusambandið og stjórnarandstaðan segja að muni herða tök ráðamanna á dómstólum. Hefur sambandið hótað að svipta Pólland atkvæðarétti innan stofnana þess í refsingarskyni.

Ólíklegt þykir að sú hótun Evrópusambandsins verði framkvæmd að svipta Pólland atkvæðarétti sínum en þeim mun líklegra að í staðinn verði gripið til þess ráðs að draga úr styrkveitingum til landsins sem er mjög háð styrkjum frá sambandinu.

Tusk sagði að útganga Póllands úr Evrópusambandinu væri þannig möguleg þrátt fyrir að stjórnvöld hefðu ekki nein áform um slíkt. Fyrr á þessu ári kallaði forseti Póllands, Andrzej Duda, eftir því að haldið yrði þjóðaratkvæði um veru Póllands í sambandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert