„Verið að pissa í skóna í raun og veru“

Donald Trump bandaríkjaforseti á kosningaviðburði í Missouri í Bandaríkjunum í …
Donald Trump bandaríkjaforseti á kosningaviðburði í Missouri í Bandaríkjunum í gærkvöldi. AFP

Friðjón Friðjónsson, framkvæmdastjóri almannatengslaskrifstofunnar KOM og sérfræðingur um bandarísk stjórnmál, ræddi kosningar í Bandaríkjunum við blaðamann mbl.is sl. laugardag. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild hér að neðan þar sem farið er yfir kosningarnar í dag og hvaða áhrif líklegar niðurstöður hafa á Donald Trump bandaríkjaforseta. 

Friðjón telur m.a. að Trump sé að nýta sér innflytjendamálin á lokametrunum til að reyna að kveikja í sömu kjósendum og unnu honum forsetakosningarnar árið 2016 en Repúblikanaflokkurinn þarf að treysta á að ómenntaðir karlmenn skili sér á kjörstað.

Friðjón Friðjónsson fór yfir stöðuna í bandarískum stjórnmálum um þessar …
Friðjón Friðjónsson fór yfir stöðuna í bandarískum stjórnmálum um þessar mundir.

„Ómenntaðir eða minni menntaðir hvítir karlmenn hafa hlutfallslega meiri áhyggjur af innflytjendamálum heldur en margir aðrir hópar. Þetta var lykilhópur fyrir Trump að vinna og þetta er lykilhópur fyrir Trump og repúblikana að halda. Þess vegna er Trump að mjög mikið að tala um innflytjendamál núna,“ segir Friðjón.

Hann telur að hörð stefna repúblikana í innflytjendamálum og traust þeirra á hvíta ómenntaða kjósendur gætu orðið flokknum dýrkeypt á næstu árum þar sem lýðfræði Bandaríkjanna er að taka miklum breytingum.  

Þegar Mitt Romney tapaði forsetakosningunum fyrir Obama 2012 ætlaði Repúblikanaflokkurinn að sér að sækja meira í kjósendur af rómönskum uppruna en tók síðan ákveðna U beygju með Donald Trump en vann kosningarnar engu að síður. 

„Ég held að það hafi bara verið að pissa í skónna í raun og veru. Þeir náðu að keyra upp einhvern hóp kjósenda sem er deyjandi eða hverfandi, ómenntað hvítt fólk í miðríkjunum, Pennsylvaniu, Ohio og víðar,“ segir Friðjón en kjósendum af rómönskum uppruna fjölgar ört í Bandaríkjunum. 

„Þetta er mest stækkandi þýðishópur í Bandaríkjunum, þau eignast fleiri börn og fjölgar alltaf með innflytjendum. Spænskumælandi fólk af rómönskum uppruna það er kjósendahópur framtíðarinnar.“

Stórsigur demókrata yrði leiddur áfram af konum

„Menntaðar konur eru alveg komnar yfir til demókrata, þær eru mjög margar og þeim fjölgar. Þannig að sem demógrafískur hópur viltu frekar vera með menntaðar konur en ómenntaða karla því þeim fer fækkandi þar sem fleiri eru að mennta sig.“

„Ef að bláa bylgjan verður að veruleika, verður það fyrst og fremst konur og þá karlmrembuhegðun Trump sem hefur reitt þær til reiði og komið þeim af stað í meira mæli en áður var,“ segir Friðjón en þar er átt við stóran kosningasigur demókrata.

Hann telur hins vegar ekki miklar líkur á stórum kosningasigri demókrata.

Metfjöldi kvenna eru í framboði í ár en Friðjón segir að allur gangur á því hvernig þeim hefur verið að ganga.

„Ég vona þeim fjölgi á þingi. Ég held það verði mjög gott fyrir þing Bandaríkjanna að það verði meiri fjölbreyttni þar.“ 

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér að neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka