106 ára og fékk ríkisborgararétt á kjördag

Maria Valles Bonilla, sem er 106 ára gömul langamma, fékk loksins að kjósa í Bandaríkjunum í gær því hún fékk ríkisborgararétt þann sama dag. Hún hefur búið lengi í Bandaríkjunum en flestir afkomendur hennar eru einnig bandarískir ríkisborgarar. Þetta er í fyrsta skipti sem Bonilla kýs í kosningum en hún er fædd í El Salvador. Fyrir sex árum fékk hún dvalarleyfi til langs tíma í Bandaríkjunum eftir langa búsetu þar.

„Þegar ég er spurð að því hvað sé það mikilvægasta í mínu lífi þá er svar mitt að verða bandarískur ríkisborgari,“ sagði Bonilla þegar hún ræddi við fjölmiðla í gær. Tvísýnt var um að henni tækist þetta þar sem hún hefur fengið tvö hjartaáföll á þessu ári.
Maria Valles Bonilla var með bandaríska fánann í annarri hendi og hina í hjartastað þegar hún sór hollustueið sinn í gær. Með henni voru börn, barnabörn og barnabarnabörn. Hún segir að það hafi alltaf verið draumur eiginmanns hennar að verða Bandaríkjamaður og eftir andlát hans hafi hún ákveðið að sækja um ríkisborgararétt. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert