Asia Bibi, pakistönsk kona sem er kristinnar trúar, er laus úr fangelsi. Hæstiréttur Pakistans sneri í síðustu viku við dómi undirréttar en hún hafði verið sakfelld fyrir guðlast. Bibi hafði verið í átta ár í fangelsi á dauðadeild.
„Mér hefur verið sagt að hún sé um borð í flugvél en enginn veit hvar hún lendir,“ kom fram í skriflegu svari Saif Mulook, lögmanns Bibi, við fyrirspurn AFP-fréttastofunnar.
Eiginmaður Bibi, Asiq Masih, hefur sótt um hæli í Bretland eða Bandaríkjunum en lögmaður hennar er flúinn til Hollands.
Bibi var sett í farbann eftir að hæstiréttur sneri við dómnum en það var tilraun til að reyna að binda enda á mótmæli harðlínumanna í landinu. Þeir litu hins vegar á farbannið sem leyfi til að taka hana af lífi án dóms og laga.
Bibi tilheyrir minnihlutahópi kristinna í Pakistan og var ákærð og dæmd fyrir guðlast árið 2010 eftir að hafa lent í rifrildi vegna vatnsskálar. Múslimskar samstarfskonur hennar neituðu að leyfa henni að snerta skál með vatni vegna trúar hennar og tilkynntu hana skömmu síðar til klerksins í bænum og sökuðu hana um guðlast gegn Múhameð spámanni.