Demókratar ná fulltrúadeildinni

Frá kjörstað í gærdag. Ekki hafa öll atkvæði verið talin …
Frá kjörstað í gærdag. Ekki hafa öll atkvæði verið talin enn. AFP

Útlit er fyrir að demókratar nái meirihluta í fulltrúadeild Bandaríkjaþings eftir kosningarnar sem fram fóru vestanhafs í gær. Í kosningasigrinum þykir felast töluvert högg fyrir forsetann Donald Trump, sem haldið hefur um valdataumana í nær tvö ár.

Vonir demókrata um að ná stjórn í öldungadeild þingsins eru á sama tíma úti, en þar virðist sem repúblikanar bæti við sig um þremur sætum samkvæmt síðustu talningum.

Búist er við að demókratar geti nú byrjað að koma í veg fyrir að löggjöf Trumps verði samþykkt í þinginu, og geti um leið gert honum lífið leitt með frekari rannsóknum á fjármálagjörningum fyrirtækja í hans eigu og á afskiptum Rússa í kosningunum árið 2016.

Demókratar hafa margir hverjir búið sig undir svokallaða bláa bylgju, þar sem flokkurinn myndi ná fjölda sæta á þinginu og góðum meirihluta. Ekki er enn víst hvort innistæða hafi verið fyrir þeim væntingum, þótt meirihluti þeirra sé þegar talinn tryggður.

Repúblikanar unnu varnarsigra

Eitt er víst og það er að Bandaríkjamenn flykktust á kjörstað, en langar raðir mynduðust fljótt á kjörstöðum allt frá New York til Kaliforníu og frá Missouri til Georgíu. Kjörsókn hefur mælst töluvert meiri en alla jafna í kosningum sem þessum, þar sem forsetaembættið er ekki undir.

Öll 435 sætin í fulltrúadeildinni voru undir í kosningunum, auk 35 sæta af 100 í öldungadeildinni. Þá var kosið um embætti 36 ríkisstjóra.

Repúblikanar unnu nokkra varnarsigra í veigamiklum kosningum, meðal annars í Kentucky þar sem þingmaðurinn Andy Barr hélt sæti sínu þrátt fyrir spár um annað.

Í öldungadeildinni hrifsaði repúblikaninn Mike Braun sæti demókratans Joe Donnelly í Indiana, á sama tíma og umdeildi öldungadeildarþingmaðurinn Bob Menendez hélt sæti sínu fyrir demókrata í New Jersey.

O'Rourke laut í lægra haldi

Beto O'Rourke, demókrati sem gripið hafði athygli almennings, fjölmiðla og frægra vestanhafs, tapaði naumlega fyrir sitjandi öldungadeildarþingmanninum og fyrrverandi forsetaframbjóðandanum Ted Cruz í Texas.

Donald Trump hafði barist hart fyrir flokk sinn í aðdraganda kosninganna. Ferðaðist hann um landið og fullyrti að demókratar myndu innleiða sósíalisma ásamt því að beina athyglinni að þeirri aðsteðjandi vá sem hann segir felast í flóttamannalestinni sem er á leið norður til Bandaríkjanna í gegnum Mið-Ameríku og Mexíkó.

Taka þarf fram að ekki eru öll atkvæði talin, en síðustu kjörstaðir loka klukkan 6 að morgni að íslenskum tíma, í Alaskaríki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert